Mynd: National Geographic
Mynd: National Geographic

Nýlega sagði Hvatinn frá árangri rannsóknarhópsins við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum við bólusetningu íslenskra hesta gegn sumarexemi. Önnur nálgun að því markmiði að bólusetja eða meðhöndla gegn sumarexemi er að gefa bygg, sem tjáir ofnæmisvaka, um munn.

Sumarexem kemur fram í íslenskum hestum sem fluttur eru erlendis, en það er ekki algengt meðal til dæmis erlendra hesta. Exemið er ofnæmissvar hestanna við bitmýi, en mýið er ekki til hér á landi og þar af leiðandi komast hestarnir ekki í kynni við mýið fyrr en þeir eru fluttir út.

Í rannsókn sem Sigríður Jónsdóttir doktorsnemi við Keldur kynnti á Líffræðiráðstefnunni um helgina er kannað hvort mögulegt sé að framleiða ofnæmisvaka í byggi, í þeim tilgangi að gera bólusetningu í gegnum munn mögulega og lækka þannig kostnað við framleiðslu á ofnæmisvakanum. Rannsóknin er unnin í samvinnu við ORF líftækni sem sér um að rækta bygg sem tjáir vakann.

Byggið er látið tjá ofnæmisvakann í fræhvítunni, byggið er hirt, malað og leyst upp í saltlausn. Þessum bygggraut er svo komið fyrir á sérstöku holméli sem var hannað til notkunar í þessu verkefni. Þar sem bygg er planta sem hestar geta étið og melt er komist hjá því að hreinsa ofnæmisvakann sérstaklega, en slíkar prótínhreinsanir eru bæði kostnaðasamar og tímafrekar.

Þegar ofnæmisvakinn er gefinn með bygggraut á holméli, þ.e. í gegnum munn, hefur hann greiðan aðgang að angafrumum, mikilvægum frumum ónæmiskerfisns sem sjá um að lesa eða smakka umhverfið. Angafrumur er til dæmis að finna undir tungu og útí kinnum á mönnum en þess vegna gæti bólusetning með þessum hætti getur gefið góða raun.

Þegar ónæmissvar hestanna var skoðað eftir meðhöndlun kom í ljós að myndun varð á ofnæmisvaka sértækum IgG1 og IgG4/7 mótefnum en ekki IgG5. Þetta eru jákvæðar niðurstöður því þetta svar bendir til að ónæmissvarið sé varnarsvar en ekki ofnæmi.

Vonir eru bundnar við að með þessari aðferð verði hægt að bólusetja íslenska hesta og jafnvel í framtíðinni meðhöndla hesta sem þegar hafa fengið ofnæmi, en slík meðhöndlun þarfnast þó enn frekari rannsókna.