sleep-deprived

Svefn er einn af mikilvægustu þáttum lífs okkar og er Hvatanum mjög hugleikið mál. Sumir myndu jafnvel segja að svefn væri betri en súkkulaði en Hvatinn leggur ekki mat á það. Það er hins vegar óumdeilt að svefn skiptir höfuðmáli fyrir virkni okkar frá degi til dags, það þekkja allir sem hafa þurft að vaka heilu eða hálfu næturnar og ætla sér svo stórræði daginn eftir. En hversu mikil áhrif hefur svefnleysi á okkur og eru þau varanleg?

Rannsókn sem unnin var við Háskólann í Uppsala og Karolinska Institute í Stokkhólmi gefur til kynna að breytingar verði á erfðaefninu við svefnmissi. Rannsóknin var unnin á 15 karlkyns heilbrigðum sjálfboðaliðum sem gáfu blóð og vefjasýni, úr fituvef á kvið og vöðvasýnir úr læri, fyrir og eftir fullan nætursvefn eða eftir engan svefn. Allir þátttarkendur þurftu að ganga í gegnum báðar meðhöndlanir.

Við skoðun sýnanna kom í ljós að breytingar höfður orðið á erfðaefninu við það að missa úr eina nótt af nætursvefni. Stjórnun á tjáningu gena fer meðal annars fram í gegnum svokallaðar utangenaerfðir en í því felast alls kyns breytingar á genunum, eins og að hengja ákveðna efnahópa á erfðaefnið til að hindra tjáningu eða til að örva tjáningu. Þátttakendur sem sváfu ekki heila nótt voru með töluvert miklar breytingar á utangenaerfðum á þeim genum sem tengd hafa verið við líkamskukkuna.

Frekari rannsókna er þörf til að sjá hvort áhrif svefnleysisins sé varanleg, langvinn eða lagist eftir einn góðan nætursvefn. Það er hins vegar vitað að fólk sem vinnur óreglulega vinnu sýnir svipaða breytingu á áður nefndum genum og er því líklegt að langvarandi svefnleysi leiði til þess að tjáningin breytist varanlega. Það sem meira er þá eru samskonar breytingar að finna í þeim sem þjást af sykursýki týpu tvö, en þeir sem kljást við svefnvandamál eru í aukinni áhættu að þróa hana með sér.

Tengdar fréttir:

Sérfræðingar segja 7 tíma svefn lágmark

Er þreytan að fita þig?