bed-mattress-uratex-memory

Svefn er eins og við vitum mikilvægur að mörgu leiti fyrir utan það hvað það er ofboðslega gott að sofa. Nú sýna niðurstöður rannsóknar á vegum háskólans í Exeter fram á enn einn kostinn sem felst í því að fá góðan nætursvefn: svefn bætir minnið. Rannsóknarhópurinn komst að því að með því að fá góðan svefn komum við í veg fyrir að minningar tapist og minningarnar verða aðgengilegri.

Í rannsókninni skoðuðu vísindamennirnir hversu auðvelt fólk átti með að muna orð sem vísindamennirnir höfðu búið til. Þátttakendur voru beðnir um að læra orðin og voru síðan beðnir um að telja þau upp aftur 12 tímum seinna. Á þessum 12 tímum höfðu þátttakendur ýmist fengið að sofa eða ekki.

Í ljós kom að þeir sem höfðu fengið að sofa voru næstum tvöfallt líklegri til að muna orðin en þeir sem sváfu ekki. Þeir voru jafnframt líklegti til að muna orðin eftir að hafa sofið en þeir voru stuttu eftir að þeir höfðu lært þau.

Niðurstöðurnar benda til þess að svefn geti aukið aðgengi að minningum sem við áttum erfitt með að muna í vöku. Frekari rannsókna á þessu sviði er þó þörf til að staðfesta niðurstöðurnar en þangað til getur varla sakað að fara að ráðum mæðra sem mæla með góðum svefni fyrir mikilvæg próf.

Heimild: ScienceAlert

Lestu einnig: Svefnleysi breytir tjáningu gena