feasting

Jákvæð áhrif sveltis á lífslíkur hafa lengi verið þekkt. Slík áhrif sjást í mannafrumulínum en einnig í músum. Ástæðurnar eru margar, m.a. sú að við svelti hefst tjáning á nokkurs konar varnarprótínum. Þessi varnarprótín sjá til dæmis um að eyða oxandi efnum í frumunni og verja þannig DNA-ið.

Hópur vísindamanna við University of Florida College of Medicine og Boston Children’s Hospital vildu skoða hvaða áhrif svelti hefði í mönnum ekki bara frumulínum heldur lifandi einstaklingum.

Rannsóknin náði til 24 heilbrigðra einstaklinga voru látnir svelta sig og borða yfir sig til skiptis. Einn daginn fengu þeir 25% af þeirra venjulega kalóríuskammti en hinn daginn var þeim gefið 175%. Þetta gekk yfir í þrjár vikur og voru ýmsir heilsufarsþættir eins og þyngd, blóðþrýsingur, glúkósi í blóði og margir fleiri mældir fyrir og eftir meðhöndlun. Síðan tóku við aðrar þrjár vikur þar sem viðföngin fengu sömu matarskammta en með að auku andoxunarefni í formi C og E vítamína.

Það sem hópurinn hafði sérstaklega áhuga á að skoða var tjáning á sirtuin (SIRT) prótínum, en það eru prótín sem má flokka sem varnarprótín. Þau taka þátt í að eyða oxandi efnum í frumunni. SIRT3 hækkaði lítillega við þessar breytingar á matarræði að sama skapi lækkaði insúlín í blóði örlítið. Aðrir heilsufarsþættir stóðu í stað. Þegar viðföngin tóku andoxunarefni með matarræðinu, virtist það draga úr áhrifum matarræðisins á SIRT3 tjáningu. Hópurinn ályktaði sem svo að ákveðin stresseinkenni sem verða til við svelti setja tjáninguna í gang, en ef andoxunarefni eru til staðar þá er ekki þörf á að virkja varnareiningar frumunnar.

Það sem kom vísindamönnunum sennilega mest á óvart var að viðföngin kvörtuðu yfir hversu erfitt var að borða 75% meira en venjulega á dag, en búast hefði mátt við dagarnir þar sem einungis 25% voru borðuð væru erfiðari. Rétt er að taka fram hér að rannsóknin er unnin á heilbrigðum einstaklingum sem voru undir smásjá vísindamanna og ekki hægt að segja til um hvort slíkar sveiflur í matarræði hefðu jákvæð áhrif á veika einstaklinga.

Háskólinn í Flórída sendi frá sér fréttatilkynningu um málið sem hægt er að nálgast hér.