Mynd: ScienceAlert
Mynd: ScienceAlert

Þeir eru sennilega fáir einstaklingarnir í heiminum sem hafa ekki a.m.k. eitt ör einhvers staðar á líkamanum. Mörgum þykja þessi ör leiðinleg og jafnvel lýti á líkama sínum og þeir gætu þá kannski glaðst yfir nýlega birtum rannsóknum frá University of Pennsylvania.

Ör er vefur sem inniheldur mestmegnis vöðvabandvefsfrumur (myofibroblasts) en fáar eða engar fitufrumur og í örum er ekki að finna nein hár. Í rannsókn sem fékkst birt í Science er hugmyndum okkar um vöðvabandvefsfrumurnar storkað og sýnt fram á hegðunarmynstur sem ekki var talið að þær ættu í sér.

Rannsóknarhópurinn notaði hársekki til að örva myndun fitufrumna í vef í sári. Hársekkirnir gefa frá sér prófín sem kallast BMP (Bone Morphogenetic Protein). Þegar vöðvabandvefsfrumurnar skynja BMP í umhverfi sínu skipta þær um ham og þroskast yfir í fitufrumur. Fyrir þessa rannsókn var talið að vöðvabandvefsfrumurnar væru komnar á nokkurs konar endapunkt í þroskun og gætu því ekki breytt sér í nokkra aðra frumutýpu. Þegar fitufrumur eru til staðar í vefnum sem lokar sárinu verður vefurinn allt öðruvísi og því myndast ekki ör.

Rannsóknin sem hér er nefnd var framkvæmd í frumurækt og músum. Enn hafa engar tilraunir verið gerðar á lifandi húð á manneskju. Þrátt fyrir það eru þessar niðurstöður staðfesting á því hvaða möguleika vefurinn býður uppá. Það er kannski ólíklegt að hársekkjum verði komið fyrir í djúpum sárum en möguleikinn á að hafa áhrif á hvaða frumugerðir verða til er þó fyrir hendi.

Það gæti því verið að komandi kynslóðir muni aldrei þurfa að rifja upp hjóla- eða róluslys sem skildi eftir sig blóðugt hné eða skurð á enni.