Mynd: nJoy Vision
Mynd: nJoy Vision

Það virðist ekki vera augljós tenging milli sýklalyfjanotkunar og bata við Alzheimer’s. Samt sem áður virðist þetta vera niðurstaða rannsóknar sem birt var í Scientific Reports á dögunum. En í rannsókninni sýndi hópur við The University of Chicago fram á tengsl milli sýklalyfja notkunar og minnkunar í ß-amyloid peptíða í heila. En ß-amyloid útfellingar í heila eru eitt af einkennum og mögulega upphafi Alzheimer’s sjúkdómsins.

Í rannsókninni notaðist hópurinn við mýs sem glíma við Alzheimer’s líkan sjúkdóm og eru notaðar sem líkön við Alzheimer’s rannsóknir. Hluti músanna fengu breiðvirk sýklalyf í 5-6 mánuði meðan hinn hlutinn fékk engin sýklalyf. Í lok tímabilsins voru áhrif sýklalyfjanna á þarmaflóru músanna metinn og leitað eftir áhrifum breytinga bakteríuflórunnar á framgang sjúkdómsins.

Bakteríuflóra músanna sem fengu sýklalyf var eins og gefur að skilja allt önnur er sú sem ómeðhöndlaðar mýs sýndu. Og það sem meira var þá hafði þesssi breytta samsetning bakteríanna heilmikil áhrif á magn ß-amyloid útfellingar í heilanum. Enn sem komið er hefur ekki tekist að skilgreina hvaða bakteríur það eru sem hafa þessi áhrif en ljóst er að það getur skipt sköpum fyrir framgang sjúkdómsins hvaða örverur eru til staðar í líkama sjúklinganna.

Það skal tekið skýrt fram að þessar niðurstöður munu ekki leiða til þess að Alzheimer’s sjúklingar fá sýklalyf til að berjast við sjúkdóm sinn. Enda eru það í raun ekki sýklalyfin sjálf sem hafa áhrif á Alzheimer’s heldur er það örveruflóran. Þessi rannsókn er þó fyrsta skrefið í að skilgreina hvernig bakteríur geta hjálpað okkur í baráttunni við taugahrörnunarsjúkdóma. Í framtíðinni verður mögulega hægt að nýta þekkingu á samsetningu bakteríuflórunnar til að lækna eða halda aftur af sjúkdómum á borð við Alzheimer’s.