Syklalyf gegn krabbameini_mynd

Rannsókn sem unnin var í Bretlandi og stýrt var af Micheal P. Lisanti segir að með tíð og tíma gæti sýklalyfjameðferð orðið hluti af krabbameinsmeðferð. Ástæða þess að hópurinn fór að skoða hvaða áhrif sýklalyf hafa á krabbamein var sú að krabbamein, sem eru mjög orkufrekar einingar, tjá mjög mikið af hvatberaprótínum. Þetta þýðir að í krabbameinsfrumum fer mikið starf fram í hvatberunum. Það vill þannig til að hvatberarnir eru um margt líkir bakteríum, enda eru hvatberar taldir vera baktería að uppruna. Þessa líkingu héldu vísindamenn að væri hugsanlega hægt að nýta við krabbameinsmeðferð.

Hópurinn prófaði aðallega sýklalyf sem miða á prótínmyndandi einingar í bakteríum, ríbósóm. Ríbósóm í bakteríum og hvatberum eru nefnilega áþekk. Til að meta hvaða áhrif sýklalyfin höfðu á frumurnar mældi hópurinn hvort frumurnar mynduðu klumpa í rækt, það sem líkist upphafskrefum æxlismyndunar. Slíkar prófanir voru gerðar á átta mismunandi krabbameinsgerðum.

Niðurstaðan var sú að sýklalyfin minnkuðu getu krabbameinsfrumnanna til að mynda klumpa, án þess þó að hafa áhrif á lifun þeirra. Þar sem sýklalyfin virtust ekki hafa áhrif á lifunina má ætla að sýklalyfin hafi ekki eitrunaráhrif á frumurnar heldur koma áhrifin eingöngu fram í getu þeirra til að mynda æxli. Þetta vekur vonir um að sýklalyfin beinist frekar að stofnfrumum krabbameina en heilbrigðum frumum. Þess ber þó að geta að þetta eru einungis fyrstu niðurstöður úr tilraunum sem gerðar voru á frumulínum og enn er nokkuð langt í land áður en hægt verður að segja til um hvort og þá hvernig sýklalyf verða notuð í krabbameinsmeðferð.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér