drug-resistant-bacteria

Sýklalyfjaónæmar bakteríur eru vaxandi vandamál í heilbrigðisgeiranum. Ástæðan fyrir ónæminu er til dæmis sú að bakteríur verða fyrir smávægilegu áreiti af lyfinu, áreitið er ekki nægilega mikið til að drepa þær en leiða samt til þess að þær bakteríur sem hafa eiginlega til að brjóta sýklalyfið niður eða þola það betur lifa betur og fjölga sér. Þannig verður til stofn sem er sýklalyfjaónæmur.

Sýklalyfjamengun í umhverfinu er ein af ástæðunum fyrir því að þetta gerist en sum lyfjafyrirtæki, sérstaklega þau sem eru staðsett í fátækari löndum með slakari reglugerðum, dæla oft heilmiklu af lyfjum útí umhverfið með úrgangi sínum. Lyfin þynnast svo út og dreifast um vistkerfið til dæmis í gegnum fæðukeðjuna. En um þetta hvimleiða vandamál og dreifingu þess um heiminn er einmitt fjallað í grein sem birtist í PLOS one í mars.

Hvað sem ástæðum þess líður er mjög mikilvægt að bregðast við vandamálinu sem hefur komið upp. Ein aðferð sem hefur verið notuð er að gefa einhvers konar blöndu af sýklalyfjum eða gefa þau í hærri skömmtum. Í nýjasta tölublaði PLOS biology, sem kom út í apríl birtist grein þar sem enn einni mögulegri lausn við ónæminu er velt upp.

Í rannsókninni sem unnin var við University of Exeter í Bretlandi, var leitast við að prófa hvort sýklalyf hefðu meiri áhrif væru þau gefin í sitt hvoru lagi, frekar en væru þau gefin samtímis. Að auki notast vísindamennirnir við minnsta mögulega skammt af lyfjunum, svo í staðinn fyrir að auka skammtinn, eins og hefð er fyrir, beitir rannsóknarhópurinn sömu aðferð og hingað til hefur verið talin orsök þess að ónæmið myndast þ.e. litlir skammtar.

Niðurstöðurnar voru þær að röð meðhöndlanna með sitt hvoru sýklalyfinu, í lágum skömmtum, leiddi til minni vaxtar bakteríanna. Athyglisvert þótti að miku máli skipti í hvaða röð lyfin voru gefin. Í þessari tilteknu rannsókn var notast við E.coli og tvö skilgreind sýklalyf. Ekki var um raunverulega sýkingu að ræða heldur var vöxtur bakteríanna í rækt mældur. Hér var því um mjög staðlaðar aðstæður að ræða og vel skilgreindan stofn af bakteríum.

Þessi aðferð gæti þó verið möguleg meðferð við sýkingum sem verða vegna sýklalyfjaónæmra baktería. Áður en farið yrði útí meðferðir á fólki þarf þó að endurtaka rannsóknir og skilgreina betur hvaða sýklalyf hefðu áhrif á skilgreinda stofna.

Það verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi rannsóknum í þessum efnum. Við munum vonandi sjá fjölgun meðhöndlunarúrræða við sýklalyfjaónæmum bakteríum og aðferðum til að sporna við þeirri þróun sem orðið hefur í ónæmi þærra.