bacteria

Ógnin sem stafar af sýklalyfjaónæmi er því miður enn að aukast. Þrátt fyrir heillanga þróun virðist fátt duga til að snúa henni við og enn og aftur fáum við neikvæðar fregnir úr heimi örveranna, þ.e.a.s neikvæðar fyrir okkur sem treystum á sýklalyf.

Á ráðstefnu American Society for Microbiology í New Orleans komu fram þónokkrar rannsóknir sem sýna fjögun gena sem veita bakteríum ónæmi. Bakteríum sem geyma þessi gen fjölgar umtalsvert en bæði er um að ræða rannsóknir þar sem saursýni úr fólki voru skoðuð sem og sýni úr búfénaði.

Það sem vekur mestan óhug meðal vísindasamfélagsins er að þessi gen bera með sér ónæmi gegn þeim sýklalyfjum sem hingað til hafa verið notuð sem síðasta úrræði, þegar önnur sýklalyf virka ekki. Ónæmið, sem virðist dreifast hratt milli baktería getur því leitt okkur í mjög alvarleg vandræði.

Hingað til hefur sýklalyfjaflokkarnir colisitin og carbapenems verið síðasta úrræði heilbrigðisstarfsfólks við sýkingum. Ástæðan er m.a. sú að lyfin hafa verið tengd við ýmsar alvarlegar aukaverkanir og má þar nefna að colistin getur haft alvarleg áhrif á nýrnastarfsemi.

Aukaverkanirnar hafa ekki komið í veg fyrir ofnotkun á lyfjunum í búskap um allan heim en ónæmi við t.d. colistin kom fyrst fram í bakteríum sem lifa í búfénaði vegna þess að framleiðendur nota sýklalyf óspart til að auka afurðir sínar. Sýklalyfjum er þá ekki beitt sem meðferð heldur virðast dýrin ná betri nýtingu á fóðrinu þegar engar bakteríur til staðar í þörmum þeirra.

Þegar dýrunum eru gefin sýklalyf með þessum hætti hreinsast ekki bara þarmaflóran hjá þeim, sennilega með tilheyrandi óþægindum fyrir dýrin, heldur gusast sýklalyfin útí umhverfið í gegnum til dæmis saur og fóður. Um leið og sýklalyfin verða í svo miklu magni í umhverfinu skapast aðstæður þar sem bakteríur reyna að finna leið til að berjast gegn efninu, þær bakteríur sem ná að berjast gegn því verða ónæmar og lifa af. Þannig ná þær bæði að fjölga sér með ónæminu og dreifa því til annarra baktería með ýmsum leiðum.

Ef fram fer sem horfir verða öll sýklalyf ónothæf innan fárra ára og þá fyrst finnum við mannfólkið fyrir því hversu illa við höfum farið að ráði okkar með ofnotkun þeirra, bæði í landbúnaði og til eigin nota. Til að spyrna við þessari þróun þurfum við að snarminnka alla sýklalyfjanotkun, til að minnka líkurnar á því að bakteríur taki upp eiginleikann til að brjóta þau niður.