Mynd: Science Nordic
Mynd: Science Nordic

Flestir hafa heyrt talað um sýklalyfjaónæmi en það er ekki þar með sagt að allir skilji hvað það er, hvernig það kemur til og hvaða áhrif það getur haft á líf okkar mannfólksins.

Bakteríur sem byggja jörðina með okkur telja miklu fleiri tegundir en við getum ímyndað okkur og fæstar lifa í samlífi með okkur. Langflestar þeirra sem það gera, gera okkur engan skaða heldur gagn, þær hjálpa okkur að melta matinn svo eitthvað sé nefnt.

Sumar bakteríur eru svo sýklar. Þær sýkja okkur og við þurfum að verja okkur gegn þeim með ónæmiskerfinu. Oft dugar ónæmiskerfið ekki til og þess vegna hentar svo óskaplega vel að eiga til sýklalyf, þ.e. lyf sem drepa bakteríur en hafa engin áhrif á okkar eigin frumur. En misnotkun eða ofnotkun sýklalyfja hefur nú komið okkur í bobba.

Það sem hefur gerst hér í hinum vestræna heimi er að við notum of mikið af sýklalyfjum. Við fáum margar tegundir sýklalyfja þegar við veikjumst og hluti þeirra fara útí umhverfið. Við notum sýklalyf í mjög miklum mæli við að rækta okkur kjöt og þar töpum við gríðarlegu magni sýklalyfja útí umhverfið. Margar lyfjaverksmiðjur eru staðsettar í löndum þar sem engar reglugerðir eru til staðar um úrgangslosun og þar missum við ótrúlegt magn af sýklalyfjum útí umhverfið. Þetta gerir það að verkum að sýklar hitta sýklalyfin fyrir útum allt, í líkama okkar sem og annars staðar í umhverfinu. Bakteríur eru ótrúlegar verur og þegar þær verða fyrir svona miklu áreiti þá geta sumar þeirra myndað þol. Þegar ein hefur myndað þol, þá lifir hún af í þessu eitraða umhverfi og getur svo deild þolinu með fleiri bakteríum.

Nú stöndum við á barmi þess að sýklalyfin okkar duga ekki gegn öllum sýkingum. Til að reyna að sporna við þessu er því mjög mikilvægt að við förum að stunda ábyrga notkun sýklalyfja með því að draga úr notkun þeirra. Að auki er mikilvægt að lyfjafyrirtæki einbeiti sér að þvi að þróa ný sýklalyf sem við getum notað þegar annað bregst. Með samstilltu átaki verður hægt að snúa þróun sýklalyfjaónæmis á annan veg.

Betur er sagt frá þessu öllu í myndbandinu hér að neðan sem birtist á youtube rás In a Nutshell