Lekanda vill helst enginn þekkja en það er bakteríusýking sem smitast við kynmök. Bakterían sem veldur lekanda heitir Neissera gonorrhea. N. gonorrhea getur borist á milli einstaklinga við samfarir sem og munnmök, það sem gildir er að slímhúð komast í snertingu við slímhúð.

Einkenni lekanda eru aðallega lituð útferð og sviði við þvaglát en stór hluti þeirra sem hafa smitast af bakteríunni (um 50% kvenna og 10% karla) finna aldrei fyrir neinum einkennum. Við langvarandi smit getur bakterían leitt til ófrjósemi hjá báðum kynjum.

Fjöldi tilfella þar sem sýklalyfjaónæmur stofnar N. gonorrhea valda smiti hefur aukist mjög undanfarið. Fyrr í þessum mánuði sendi European Centre for Disease Prevention and Control (ECDC) frá sér tilkynningu um þrjú nýleg tilfelli af sýkingum þar sem bakterían hafði myndað ónæmi gegn fjölda sýklalyfja (fjölónæmir stofnar), í bæði Evrópu og Ástralíu.

Venjulega er lekandi meðhöndlaður með sýklalyfjunum azithromycin eða ceftriaxone. Algengast er að finna N. gonorrhea stofna sem hafa myndað ónæmi gegn þessum tveimur sýklalyfjum. Þá dugar til að beita öðrum lyfjum gegn bakteríunni og sýkingin fer.

Þegar bakterían hefur myndað ónæmi gegn mörgum sýklalyfjum fækkar úrræðunum til meðferðar og í einhverjum tilfellum hefur þurft að leggja sjúklinga inn á spítala til að veita mjög sértæka sýklalyfjameðferð.

Samkvæmt lista frá The Centers for Disease Control and Prevention (CDC), í Bandaríkjunum, er lekandabakterían ein af þremur bráðustu hættunum sem við munum horfast í augu við í nánustu framtíð hvað varðar sýklalyfjaónæmi. Í nýlegri rannsókn frá Chinese Center for Disease Control and Prevention kemur fram að allt að 19% N. gonorrhea stofnanna sem finnast í Kína bera með sér einhvers konar sýklalyfjaónæmi. Það er því ekki ofsögum sagt að það stefni allt í óefni í lekandamálum.

Ein einföld og örugg leið er til sem kemur í veg fyrir lekandasmit, hún er að nota smokk í hverjum þeim kynlífsathöfnum sem útsetja slímhúð fyrir snertingu við aðra slímhúð. Smokkur er reyndar mjög sniðugt fyrirbrigði því hann kemur einnig í veg fyrir smit annarra kynsjúkdóma sem og ótímabærar þunganir, en það er kannski bara viðfangsefni í annan pistil.