Mynd: Playbuzz
Mynd: Playbuzz

Laugardagar ganga á sumum heimilum undir nafninu nammidagar, þetta eru í sumum tilfellum einu dagar vikunnar sem við leyfum okkur að borða nammi eða óhollan mat og oft vill verða of mikið af því góða. Sé sykurs neytt í of miklu magni, kannski sérstaklega yfir langan tíma, getur það haft neikvæð áhrif á líkama okkar. Efnin í og umhverfis frumurnar verða þeim eitruð og þær hætta að nema orkuástandið í líkamanum, þannig verður til dæmis sykursýki týpa 2 til. Hversu ánægjulegt væri því að geta borðað nægju sína og rúmlega það af sælgæti og áhrif þess á líkamann myndu núllast út? Það gæti mögulega orðið að raunveruleika.

Í rannsókn sem birtist nýlega í PNAS er nýuppgötvuðu ensími lýst, sem tekur þátt í að stöðva eitrunaráhrif sykursins í líkamanum. Sykurferillinn er í einföldu máli þannig að glúkósa er umbreytt í glýseról-3-fosfat eftir að það hefur verið tekið inní frumurnar. Glýseról-3-fosfat er grunneining fyrir bæði áframhaldandi niðurbrot sykrunnar og forðasöfnun, en orkuástand líkamans ræður því hvor leiðin er farin. Þegar mjög mikill sykur er til staðar í blóðinu safnast glýseról-3-fosfat upp inní frumunni og það er þá sem eitrunaráhrifin geta komið fram.

Það sem höfundar greinarinnar uppgötvuðu í sinni rannsókn er að þegar glýseról-3-fosfat fer að safnast upp virkjast ensím í líkamsfrumunum sem heitir glýseról-3-fosfat-fosfatasi (G3PP). Þetta ensím gegnir því hlutverki að umbreyta glýseról-3-fosfati í glýseról og seita því útúr frumunum.

Í heilbrigðum einstakling sem innbyrgðir mátulega mikið af sælgæti í einu fer þetta ferli í gang ef svo óheppilega vill til að sykurmagnið verður of mikið. Hins vegar hjá einstakling sem er í áhættu um að fá sykursýki 2 eða hefur til lengri tíma borðað sykur í óhóflegu magni gæti ensímið annað hvort verið í of litlu magni eða það hefur ekki undan að losa frumurnar við glýseról-3-fosfatið. Við það verður til keðjuverkun, þar sem uppsafnað glýseról-3-fosfat veiklar frumurnar og leiðir til þess að þær eiga erfiðara með að taka upp sykur og brjóta hann niður.

Þessar niðurstöður gætu þess vegna komið einstaklingum sem klást við offitu, sykursýki týpu 2 eða hjarta- og æðasjúkdóma. Mögulega opnar þessi uppgötvun á meðhöndlun sjúkdómanna, meðhöndlun sem gæti þá leitt til þess að sjúkdómarnir hörfa. Það væri óneitanlega heppilegt fyrir hinn almenna neytanda að geta svo líka aukið ensímskammtinn sinn þegar óhófið fer fram úr öllu valdi.