Orðspor þunglyndislyfja hefur ekki alltaf verið það besta. Deilt hefur verið um hvort verið sé að skrifa út lyfin í of miklum mæli og gagnrýnisraddir hafa verið uppi um hvort þau virki yfir höfuð. Nú virðast niðurstöður stórrar rannsóknar hafa sýnt fram að að lyfin virki.

Það voru vísindamenn við Oxford háskóla sem leiddu rannsóknina. Í henni framkvæmdi rannsóknarhópurinn safngreiningu (e. meta-analysis) á niðurstöðum frá hátt í 120.000 einstaklingum og reynslu þeirra af 21 þunglyndislyfi.

Lyfin voru skilgreind sem árangursrik ef þau drógu úr einkennum þunglyndis um 50% eða meira. Í ljós kom að öll lyfin sem skoðuð voru áhrifaríkari en lyfleysa eftir átta vikna notkun, en þó voru sum metin áhrifaríkari en önnur. Þau luy sem skiluðu hvað mestum árangri voru lyf sem innihéldu eftirfarandi virk efni: agomelatine, amitriptyline, escitalopram, mirtazapine, paroxetine, venlafaxine og vortioxetine.

Hundruðir milljónir manna glíma við þunglyndi í heiminum og er afar mikilvægt að þeir sem glíma við sjúkdóminn hafi úrræði sem henta hverjum og einum. Þunglyndislyf eru algengt úrræði og er því jákvætt að rannsókn á svo stórum skala sýni fram á árangur þeirra.

Að því sögðu bendir Allan Young, prófessor við deild geðlækninga, sálfræði og taugavísinda við King’s College í London sem kom sjálfur ekki að rannsókninni, á að mikilvægt sé að hafa í huga að niðurstöðurnar eiga aðeins við sjúkdóminn þunglyndi. Niðurstöðurnar eigi því ekki við aðra geðsjúkdóma, á borð við áráttu- og þráhyggjuröskun, sem læknar kunna að ávísa þunglyndislyfjum gegn. Að auki eru niðurstöðurnar fengnar út frá hópgögnum og getur verið að einstakir sjúklingar svari lyfjunum á annan hátt en niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birta í tímaritinu the Lancet fyrr í vikunni.