Mynd: University of Nottingham
Mynd: University of Nottingham

Fyrsta spendýrið sem klónað var úr frumu fullvaxta dýrs, kindin Dolly, lést á sjöunda aldursári sínu eftir að hafa þjáðst af slitgigt í nokkurn tíma. Þetta olli vísindamönnum áhyggjum um að klónuð dýr eldist hraðar en þau sem komið hafa til með náttúrulegum hætti. Nýbirtar niðurstöður benda nú til þess að svo sé ekki.

Í rannsókninni var fjórum ám, sem allar voru klónar sömu kindar og Dolly, fylgt eftir auk níu annarra klóna. Dýrin voru öll sjö til níu ára gömul og voru ýmsar rannsóknir á borð við prófanir á glúkósaþoli, insúlín næmni, blóðþrýstingi auk stoðkerfisprófana gerðar á þeim.

Í ljós kom að dýrin voru heilbrigð miðað við aldur þó sum þeirra hafi sýnt einkenni slitgigtar. Einkennin voru þó ekki svo mikil að það þyrfti að meðhöndla þau og segir í greininni að við 8 ára aldur hafi allar “systur” Dolly; Debbie, Denise, Dianna og Daisy, verið við góða heilsu.

Rannsóknarhópurinn telur að slitgigt kunni að vera eðlilegur fylgifiskur öldruna hjá kindum en frekara mat verður gert á sjúkdómnum eftir að kindurnar deyja.

Þetta er í fyrsta sinn sem slík rannsókn á klónum af þessari stærð hefur verið gerð og leiddu niðurstöðurnar í ljós að miðað við samanburðarhóp var ekki að sjá að klónuðu dýrin væru verr staddar en þær sem ekki voru klónaðar. Niðurstöðurnar eru því jákvæðar fyrir þá sem binda vonir við að hægt verði að nýta klónun til góðs í framtíðinni, þó vissulega séu enn skiptar skoðanir á ágæti tækninnar.