Mynd: nihilist
Mynd: nihilist

Hugsanlega hafa einhverjir lesendur Hvatans strengt áramótaheit um að minnka kaffidrykkju á nýju ári. Þó kaffidrykkja hafi oft jávæð áhrif á líkamann þá getur samt sem áður verið ágætt að fá sér öðru hvoru mildari koffíngjafa eins og tebolla, sérstaklega ef marka má niðurstöður nýrrar kínverskrar rannsóknar sem birtist í Journal of the American College of Nutrition í lok síðasta árs.

Í rannsókninni eru um 5000 sjálfboðaliðar frá Wuyishan, Fujian Province í Kína spurðir útí venjur sínar meðal annars hvað varðar tedrykkju. Að auki var ástand slagæða þeirra metið með því að mæla bæði blóðþrýsting og blóðflæði þátttakenda, en báðir þessir þættir geta spáð fyrir um stífleika slagæðanna. Stífar slagæðar geta verið einkenni hjarta- og æðasjúkdómum sem geta leitt til ótímabærra dauðsfalla.

Helstu niðurstöður vísindahópsins voru þær að þeir sjálfboðaliðar sem höfðu drukkið te að minnsta kosti einu sinni í viku í meira en 10 ár voru ólíklegri til að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma. Það sama gilti um einstaklinga sem höfðu drukkið te í jafnmiklum mæli í skemmri tíma, en svo virðist sem ávinningurinn verði meiri þeim mun lengur sem te hefur verið drukkið reglulega. Líklegasta skýringin á þessum jákvæðu fylgikvillum tedrykkju er tilvist flavónoiða í te-inu. Flavónoiðar eru efni sem fyrirfinnast í plöntum og sveppum og þá meðal annars í telaufum.

Þó þessi tiltekna rannsókn hafi einungis tekið mið af íbúum ákveðins héraðs í Kína þá eru niðurstöður hennar samt í samræmi við fyrri rannsóknir sem benda til þess að tedrykkja hefur jákvæð áhrif á heilsuna. Það er því heillaráð að skipta einum af kaffibollum dagsins út fyrir tebolla og sjá hvort það hafi ekki bara góð áhrif.