Mynd: M. Boylan

Lengi hefur verið vitað að svefn er mikilvægur mannfólki og getur ónægur svefn haft ýmis áhrif á heilsufar okkar og líðan. Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að einn fasi svefns, svokallaður REM-svefn, gegni því hlutverki að halda heila spendýra heitum á meðan á svefninum stendur.

Hvað er REM-svefn?

Á meðan við sofum förum við í gegnum nokkra svefnfasa. Einn þeirra kallast REM-svefn eða draumsvefn. Þessi svefnfasi einkennist af því að á meðan á honum stendur hreyfast augun til og frá á bakvið augnlokin. Auk þess mælist mikil virkni í heilanum í þessum svefnfasa og er algengt að þeir sem vaktir eru úr REM-svefni muni drauma sína vel.

Það var lífeðlisfræðingurinn Eugene Aserinsky sem uppgötvaði REM-svefninn árið 1951. Það má með sanni segja að Aserinsky hafi tekið vinnuna með sér heim þar sem hann nýtti átta ára son sinn við rannsóknir sínar. Aserinsky tengdi rafskaut við höfuð drengsins fyrir svefninn til að nema hreyfingar á andlitsvöðvum hans. Eftir einhvern tíma tók Aserinsky eftir því að rafskautin námu mikla virkni þrátt fyrir að drengurinn væri enn steinsofandi og uppgötvaði hann þar með þennan áður óþekkta svefnfasa.

Sjávarspendýr gefa mikilvægar vísbendingar

Allt frá því að REM-svefn var fyrst uppgötvaður hafa verið skiptar skoðanir á því hvaða tilgangi hann þjónar. Við vitum þó að nær öll spendýr upplifa hann. Ein undantekningin þar á eru höfrungar en rannsóknir á svefni þeirra hafa leitt í ljós að þeir upplifa ekki REM-svefn. Ólíkt okkur geta höfrungar “slökkt” á öðru heilahvelinu í einu sem gerir þeim kleift að halda áfram að synda og fara upp á yfirborðið til að anda á meðan hálfur heilinn sefur.

Rannsóknarhópur við University of California í Los Angeles vildi kanna hvort sjávarspendýr sem eyðir tíma sínum að hluta til á landi og að hluta til í hafinu væri líkara höfrungum, sem eyða öllum sínum lífsferli í hafinu, eða spendýrum á landi. Loðselir af tegundinni Callorhinus ursinus urðu fyrir valinu en tegundin eyðir miklum tíma bæði á landi og í hafinu. Þeir geta eytt mörgum vikum í sjó án þess að koma nokkuð á land en eru háðir landi til að æxlast og ala upp kópa sína fyrstu vikurnar. Til að kanna svefnmynstur selanna voru selir í manngerðri laug rannsakaðir. Rafskaut voru grædd í fjóra seli til að fylgjast með breytingum á rafvirkni í heila þeirra á meðan á svefninum stóð. Á rannsóknartímabilinu höfðu selirnir ýmist aðgang bæði að laug og landsvæði eða eingöngu lauginni.

Nánast enginn REM-svefn í vatni

Í ljós kom að þegar selirnir höfðu aðgang að landi sýndu þeir svipað svefnmynstur og landspendýr. Heilar þeirra fóru í hægbylgju svefn og inn á milli mátti greina REM-svefn. Þetta var ólíkt því sem átti sér stað þegar selirnir höfðu ekki aðgang að landi. Líkt og þekkt er hjá höfrungum „svaf“ aðeins eitt heilahvel selanna í einu og nánast enginn REM-svefn greindist. Skortur á REM-svefni á þessu tímabili hafði engin sýnileg áhrif á heilbrigði þeirra.

Fyrri rannsóknum ber ekki saman

Niðurstöður fyrri rannsókna hafa bent til þess að REM-svefn sé nauðsynlegur spendýrum á hverri nóttu. Meðal þeirra eru rannsóknir sem hafa kannað hvað gerist þegar komið er í veg fyrir REM-svefn hjá rottum. Þær rannsóknir sýndu fram á að í kjölfar tímabils án REM-svefns tóku við sólarhringar þar sem rotturnar eyddu meiri tíma í svefnfasanum, að því er virðist til að vinna upp skortinn.

Aðrar rannsóknir hafa gefið til kynna að REM-svefn sé heilanum nauðsynlegur til að halda efnaskiptum líkamans í jafnvægi. Þessu til stuðnings hafa niðurstöður sýnt fram á að rottur sem ekki fá REM-svefn éta meira en eðlilegt þykir en léttast þó um leið. Ekki eru allar rannsóknir þó á sama máli. Í því samhengi má nefna að ákveðin þunglyndislyf geta dregið úr REM-svefni án sýnilegra neikvæðra áhrifa.

REM-svefn skjálfti heilans

Jerome M. Siegel, einn höfundur greinarinnar, líkir sínum skilningi á REM-svefni við það þegar við skjálfum úr kulda. Í kulda þjónar skjálftinn þeim tilgangi að viðhalda hitastigi líkamans og telur rannsóknarhópurinn að á sambærilegan hátt þjóni REM svefninn þeim tilgangi að viðhalda hitastigi heilans á meðan spendýr sofa.

Rannsóknarhópurinn telur ástæðuna fyrir því að REM svefn greinist ekki þegar selirnir sofa í hafinu vera að þá sé annað heilahvelið sé ávallt virkt. Þannig haldist hiti í heilanum á meðan á þessum hálfsvefni stendur. Þessu er öðruvísi farið á landi þegar allur heilinn fer í gegnum svefnfasana. Í hægbylgju svefni lækkar hitastig heilans og til að sporna gegn því að hann kólni um of komi fram tímabil með aukinni virkni, REM-svefn, til að halda heilanum heitum. Með aukinni virkni eykst flæði súrefnis í heilanum sem leiðir til þess að hann hitnar.

Í kjölfar þess að rannsóknin var birt ræddi blaðamaður New York Times við vísindamann sem ekki var tengdur rannsókninni, Niels C. Rattenborg, sérfræðing í svefni við Max Planck Institute í Þýskalandi. Rattenborg sagði niðurstöðurnar vera áhugaverðar en að frekari rannsókna væri þörf til að staðfesta þær. Ætla má að rannsóknir á komandi árum muni reyna að varpa frekara ljósi á tilgang REM svefns.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar.