adhd-add

Lengi hefur verið leitða skýringa á fjölgun raskana meðal barna, dæmi um þessar raskanir eru einhverfa, ofnæmi og athyglibrestur með ofvirkni (ADHD). Margir vilja tengja fjölgunina við annað hvort matarræði okkar eða eituráhrifa frá öllum þeim efnum sem nú fyrirfinnast í umhverfi okkar. Líklegast er að um samspil þessara þátta, ásamt öruggari greiningatækni, sé að ræða. Nýleg rannsókn sem gerð var á tenglsum ADHD í drengjum við mikið notað skordýraeitur ýtti sterkari stoðum undir þær hugmyndir að eitur í umhverfinu leiði til raskana á borð við ADHD.

Fyrir um 15 árum voru varnarefni sem innihalda lífrænt fosfór bönnuð vegna eitrunaráhrifa. Í kjölfarið hófst aukin notkun á pyrethroids efnum sem teljast lítið eða ekki eitruð. Efnin eru bæði mikið notuð inná heimilum til að eitra fyrir skortýdum en einnig hefur notkun þeirra í landbúnaði aukist jafnt og þétt. Tilraunir á áhrifum þessara efna í karlkyns músum benda þó til þess að þau hafi áhrif á ofvirkni, fljótfærni og leiði til breytingar á þeim ferlum þar sem dópamín er nauðsynlegt. Brenglanir á dópamín ferlum hafa verið tengd við raskanir á borð við ADHD.

Í rannsókninni sem unnin var við Cincinnati Children’s Hospital Medical Center var magn niðurbrotsefna pyrethroids, sem kallast 3-PBA, í þvagi barna mælt auk þess sem heilsfar barnanna var metið.

Í ljós kom að drengir sem voru með mikið magn 3-PBA voru þrefalt líklegri til að greinast með ADHD en þeir sem mældust með lítið sem ekkert niðurbrotsefni í þvagi. Slíka aukningu var þó ekki að finna í stúlkum þar sem þó mældist aukið magn 3-PBA.

Þessar niðurstöður gefa til kynna að eitrunaráhrif úr umhverfinu gætu haft áhrif á þróun raskana í börnum á borð við ADHD. Efni á borð við pyrethroid brotna tiltölulega hratt niður en einnig er mögulegt að niðurbrotsefni þeirra valdi skaða í taugakerfinu. Greinina má lesa í heild sinni hér.