chilis

Góðar fréttir fyrir þá sem vilja hafa matinn sinn sterkann! Niðurstöður rannsóknar, sem birtar voru í tímaritinu BMJ, benda til þess að regluleg neysla á sterkum mat geti minnkað dánarlíkur.

Rannsóknin fór fram á sjö ára tímabili og voru þátttakendur 487.375 talsins. Verkefni þátttakenda var nokkuð einfalt en þeir sögðu frá því hversu oft þeir neyttu matar sem telst vera sterkur (aldrei, næstum aldrei, stundum, 1-2 sinnum í viku, 3-5 sinnum í viku eða 6-7 sinnum í viku).

Í ljós kom að dánarlíkur þeirra sem svöruðu 6-7 sinnum í viku voru 14% lægri en þeirra sem svöruðu aldrei eða næstum aldrei. Dánarlíkur þeirra sem svöruðu því að þeir neyttu sterks matar 1-2 í viku voru síðan 10% lægri en þeirra sem gerðu það aldrei eða næstum aldrei.

Í rannsókninni var tekið tillit til þátta eins og sjúkrasögu, aldurs, menntunar og þess hvort þátttakendur reyktu eða ekki.

Þó svo að niðurstöðurnar séu áhugaverðar eru þær langt frá því að vera afdráttarlausar enda eru margir þættir sem gætu spilað inn í. Til að mynda fór rannsóknin fram í Kína þar sem líklegra er að þeir sem borða mikið af sterkum mat búi í dreifbýli og er sú breyta ein margra sem gæti haft áhrif á niðurstöðurnar.

Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að tengsl séu á milli heilbrigðis og neyslu á chilli en hingað til hefur engin heildstæð rannsókn verið gerð á áhrifum þess að neyta sterks matar. Í ljósi niðurstöðu rannsóknarinnar sem um ræðir má þó vera að breyting verði þar á í framtíðinni.

Heimild: ScienceAlert