gty_birth_control_cc_111026_wg

Getnaðarvarnir í formi hormóna eru með vinsælustu getnaðarvörnum meðal kvenna vestrænna ríkja. Það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir einstaklinga að geta stjórnað barneignum með þessum hætti. Þrátt fyrir augljósa kosti getur verið að hormónapillan sé einnig að valda breytingum sem ekki eru æskilegar?

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á notkun getnaðarvarnarpillunnar og tengingu hennar við allt frá skapgerðarsveiflum til krabbameins. Nýverið hafa verið birtar rannsóknir þar sem fylgni finnst milli breytinga á heilanum og notkun getnaðarvarna.

Hópur við University of California, Los Angeles (UCLA) og Harvard Medical School Massachusetts skoðaði 90 konur með tilliti til ákveðinna svæða í heilanum. Hluti hópsins, 44 konur notuðu hormónagetnaðarvörn meðan 46 þeirra gerðu það ekki. Að auki var hópunum skipt í tvennt eftir því hvar í tíðarhringnum þær voru staddar. Konurnar undirgengust allar segulómun á heila til að meta þykkt heilabarkarins.

Marktæk fylgni mældist milli þynnri heilabarkar á ákveðnum svæðum heilans og inntöku getnaðarvarnahormóna. Svæðin sem um ræðir eru hluti af ennisblaðinu og hvirfilblaði. Svæðin sem mældust þynnri eru talin vera hluti af því svæði heilans sem tengist örvun og verðlaunun.

Þessi rannsókn gefur vísbendingar um að inntaka hormónalyfja geti haft áhrif á hugsun, en þær vísbendingar þyrfti að sannreyna með stærri tilraunahóp. Að auki er ekki vitað hvort þessar breytingar á þykkt heilabarkar hefur raunveruleg áhrif á hugsun, það er hins vegar vitað að tíðarhringurinn og þau hormón sem sveiflast í takt við hann hafa áhrif á hegðun og ákvarðanatöku kvendýra, hvort sem um ræður konur eða önnur kvendýr í dýraríkinu.