Mynd: Tumblehome Learning
Mynd: Tumblehome Learning

Svefn er okkur lífsnauðsynlegur og breytingar á svefnmynstri hafa meiri áhrif en marga grunar. Rannsóknir á svefni vaktavinnufólks hafa áður sýnt að það að breyta svefnmynstrinu okkar getur haft slæmar afleiðingar. Nú benda niðurstöður nýrrar rannsóknar til þess að slæmra áhrifa gæti jafnvel þó breytingar á svefnmynstri séu aðeins minniháttar.

Vísindamenn við University of Pittsburgh fengu 447 konur og karla til að bera tæki sem vaktaði svefn þeirra og svara spurningalista um hreyfingu og mataræði. Í ljós kom að 85% þáttakanda vöknuðu seinna á þeim dögum sem þeir voru í fríi.

Þær niðurstöður koma líklega fáum á óvart, enda er gott að sofa út þegar maður getur. Niðurstöðurnar sýndu þó einnig að þeir sem að sváfu út um helgar voru líklegri til þess að koma verr út í mælingum á kólesteróli, hafa stærra mittismál, hærra BMI gildi og meira insúlínviðnám en þeir sem vöknuðu á svipuðum tíma á hverjum degi. Vísindamennirnir prófuðu að taka út þætti líkt og kaloríuinntöku og líkamsrækt til að athuga hvort þeir gætu verið að valda muninum en svo var ekki.

Þetta er í fyrsta skipti sem sýnt er fram á að minniháttar breytingar á svefnmynstri geti haft áhrif á efnaskiptavandamál, að sögn rannsóknarhópsins. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism.