Graenmeti

Matarræði þar sem fastað er í 2 daga af 7 dögum vikunnar er vinsælt á Íslandi um þessar mundir, sumir segja það virka í baráttunni við aukakólíin meðan aðrir geta ekki hugsað sér að sleppa því að borða heilu eða hálfu dagana.

Við föstu fer af stað framleiðsla á efni sem heitir β-hydroxybutyrate (BHB). Þetta efni binst við prótín sem heitir NLRP3 og er hluti af prótínflóka sem tekur þátt í fyrstu bólgusvörun líkamans. Þegar BHB binst við NLRP3 hindrar það að prótínið virki eins og til er ætlast og þannig minnkar BHB bólgusvörun. Þetta er hluti af niðurstöðum Yun-Hee Youm og samstarfsfélögum hennar við Yale School of Medicine.

Ástæðan fyrir því að hópurinn er að skoða hvað gerist við föstu er sú að það er vel þekkt að fasta dregur úr bólgusvörun líkamans og með þessari rannsókn er hluti ferilsins á bak við það skilgreindur frekar. Margir sjúkdómar tengjast brenglun í bólgusvörun, til dæmis sjálsónæmissjúkdómar, sykursýki og fleiri. Rannsóknir af þessu tagi geta skýrt hvað það er sem gerist þegar einhver sjúkdómur fer að þróast og, það sem er jafnvel mikilvægara, hvernig er hægt að snúa ferlinu við. NLRP3 og gallar í því hafa þegar verið tengdir við bólgusjúkdóma og telja vísindamenn mikilvægt að skilja hvað hvetur NLRP3 og prótínflókann áfram.

En er þá nauðsynlegt að svelta sig? Fyrst ber að nefna að heilbrigður líkami ætti ekki að þurfa að bremsa af neina bólgusvörun. Of mikið bólgusvar er merki um sjúkdóm, en að sama skapi er of lítið bólgusvar líka óheilbrigt, þá getur líkaminn ekki varið sig og viðhaldið. Framleiðsla BHB eykst við föstu, lág-kolvetnamatarræði en einnig við hreyfingu. Það er því ekki nauðsynlegt að svelta sig til að koma framleiðslunni af stað og jafnvel má færa rök fyrir því að svelti valdi óþarfa streitu og pirringi meðan að hreyfing eykur ekki bara framleiðslu á BHB heldur stuðlar líka að almennri vellíðan.

Aðalniðurstaða rannsóknarinnar er sennilega sú að hér er sýnt hvernig óhóflegt matarræði getur ýtt undir sjúkdóma eins og sykursýki 2, sjálfsónæmissjúkdóma og jafnvel alzheimer.
Hér er hægt að lesa fréttatilkynningu hópsins um útgáfu rannsóknarinnar sem var birt í nature 16. febrúar síðastliðinn.