ebola

Þó ebólufaraldurinn í Vestur Afríku sé nú í rénun er veiran langt því frá dauð, og sennilega mun hún aldrei deyja út þar sem hún er ekki sérlega kresin á hýsla. Hópar vísindamanna vinna því hörðum höndum að því að finna bóluefni gegn veirunni, til að koma í veg fyrir smit. Á meðan vinna aðrir hópar að því að finna lyf sem mætti mögulega nota til að meðhöndla sjúklinga sem nú þegar hafa smitast.

Einn slíkur hópur sem stýrt er af Gene G. Olinger í University of Virginia hefur einbeitt sér að því að skima fyrir virkni gegn ebólu í lyfjum sem nú þegar eru þekkt og notuð við öðrum jafnvel óskyldum kvillum. Í rannsókninni sem birt var í Science Translational Medicine í byrjun mánaðarins voru 2600 lyf skimuð í þeim tilgangi að hamla ágengi sjúkdómsins.

Af þeim 2600 lyfjum sem voru prófuð sýndu um það bil 80 lyf virkni sem gæti nýst í meðhöndlun á ebólusmiti. Á meðal þessara lyfja voru lyf eins og andhistamín, lyf við hjartakvillum og þunglyndislyf.

Lyfin sýndu mismikla virkni og ekki er víst að hægt verði að nota þau öll sem lyf gegn ebólu, til þess þarf að gera frekari rannsóknir á lifandi vef. En þar sem lyfin eru nú þegar samþykkt af lyfjaeftirliti, a.m.k. í Bandaríkjunum og víðar, styttir það tímann frá greiningu til meðhöndlunar. Það er því gott að eiga svona rannsókn uppí erminni ef ebóla skyldi breiðast aftur út áður en tekist hefur að þróa sértæk lyf gegn ebólu.