c28_s45

Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem birtar voru í Cancer Cell þann 24. september, benda til þess að samblanda af þunglyndislyfjum og blóðþynnandi lyfjum gæti hjálpað í baráttunni við krabbamein.

Í rannsókninni prófuðu vísindamennirnir að gefa músum með illvíg heilaæxli (glioblastoma) tricyclic þunglyndislyf auk blóðþynnandi lyfja sem letja P2Y12 viðtaka. Áður hafa rannsóknir bent til þess að tricyclic þunglyndislyf minnki líkur á að einstaklingar fái glioblastoma heilaæxli en í klínískum prófunum reyndist lyfið ekki hafa nein áhrif. Einnig er þekkt að blóðþynnandi lyf auki sjálfsát frumna og var ákveðið að prófa hvaða áhrif það hefði að gefa músum bæði lyfin.

Mýsnar fengu bæði lyfin fimm daga vikunnar og voru þau gefin eitt í einu með 10-15 mínútna millibili. Þunglyndislyfið var gefið í gegnum munn en blóðþynningarlyfinu var sprautað í mýsnar.

Í ljós kom að æviskeið músanna tvöfaldaðist þegar lyfin voru gefin saman en í sitthvoru lagi höfðu lyfin engin áhrif.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að lyfin tvö vinni saman við að örva sjálfsát frumna sem verður til þess að því að krabbameinsfrumurnar deyja. Mikilvægt er að taka fram að meðferðin læknaði mýsnar ekki af krabbameininu heldur hægði hún einungis á þróun sjúkdómsins.

Að svo stöddu er ekki er vitað hvort meðferðin muni geta nýst sjúklingum með illvíg heilaæxli. Fyrsti höfundur greinarinnar, Douglas Hanahan, sagði í fréttatilkynningu að líklegt sé að nota þyrfti lyfin ásamt öðrum krabbameinslyfjum til þess að meðferðin hefði áhrif. Framhaldið veltur á því hvernig klínískar prófanir á mönnum koma út og telur Hanahan að slíkar prófanir séu ekki langt undan.