shutterstock_210285550

Karlmenn geta nú glaðst yfir því að tíð sáðlát virðast minnka líkur á því að þeir fái blöðruhálskirtilskrabbamein. Ekki virðist skipta máli hvort sáðlát eigi sér stað í einrúmi eða með bólfélaga.

Árið 2004 sýndu niðurstöður rannsóknar að því oftar sem menn fengu sáðlát því minni voru líkurnar á því að þeir fengju krabbamein í blöðruhálskirtli. Eins og með flestar rannsóknir þarf að túlka niðurstöðurnar varlega enda er margt sem getur spilaði inn í. Í þessu tilfelli er vert að minnast á að krabbamein í blöðruhálskirtli er sjaldgæft fyrir fimmtugt og ekki allir þátttakendur höfðu gengið í gegnum mesta áhættutímabilið þegar hún var gerð.

Það var því ljóst að frekari rannsókna væri þörf til að staðfesta niðurstöðurnar. Rannsóknin var stækkuð og svöruðu karlmennirnir könnun annað hvert ár í 18 ár í stað hinna átta ára sem rannsóknin spannaði upphaflega (1992-2000).

Úrtakið var stórt, eða alls 31.925 karlmenn. Þar af hafa 3.839 fengið blöðruhálskirtilskrabbamein og 384 látist af völdum þess síðan rannsóknin hófst. Í ljóst kom að þeir sem fengu fullnægingu með sáðláti 21 sinni eða oftar á mánuðu voru marktækt ólíklegri til að fá blöðruhálskirtilskrabbamein en þeir sem fengu sáðlát 4-7 sinnum í mánuði. Líkurnar á krabbameini minnkuðu um þriðjung.

Tíð sáðlát virðast þó því miður ekki hafa mælanleg áhrif á hættulegustu gerðir blöðruhálskirtilskrabbameins heldur minnka aðeins líkur á vægari gerðum þess.

Ekki er enn vitað nákvæmleg af hverju sáðlát minnka líkur á krabbameini af þessari gerð en ein tilgátan er sú að hormón sem losna við fullnægingu gætu haft jákvæð áhrif eða að tæming blöðruhálskirtilsins við sálát hafi áhrif.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar á ársfundi American Urological Association í maí síðasliðinn.