15f1cdb

Ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar hafa tvítyngdir einstaklingar meira af gráu efni, þar sem hugsun og úrvinnsla fer aðallega fram, í heila en þeir sem aðeins tala eitt tungumál. Niðurstöður þess efnis voru birtar í tímaritinu Cerebral Cortex og benda til þess að sú fyrirhöfn að skipta á milli tungumála auki magn grás efnis í ákveðnum svæðum í heilanum.

Þó svo að flestir telji það kost að vera tvítyngdur í dag hefur það ekki alltaf verið svo. Sumir vísindamenn töldu til tæmis að tvítyngi hamlaði tungumálaþroska barna og aðrir töldu að börn innflytjenda sem töluðu tvö tungumál væru ólíklegri til að aðlagast menningu og samfélagi.

Þrátt fyrir það að tvítyngi sé nú fremur talinn vera kostur en galli hefur vísindamönnum reynst erfitt að komast að því hvaða áhrif það hefur á heilann. Í rannsókn Guinevere Eden og samstarfsfélaga hennar við Georgetown háskóla í Bandaríkjunum var ákveðið að fara nýja leið til að rannasaka tvítyngi og bera saman magn grás efnis í heila fullorðinna tvítyngdra einstaklinga og þeirra sem töluðu eitt tungumál.

Rannsóknarhópurinn bar saman magn grás efnis í heila einstaklinga sem töluðu bandarískt táknmál og ensku, einstaklinga sem töluðu ensku og spænsku og einstaklinga sem töluðu eingöngu ensku. Með því að hafa einstaklinga sem notuðu táknmál með í rannsókninni var mögulegt að prófa hvort það væri aukinn orðaforði tvítyngdra einstaklinga eða þörfin til að hamla tungumálinu sem ekki er verið að nota sem hefur áhrif. Lykilatriðið í því samhengi er að þeir sem tala táknmál geta talað enskuna upphátt á meðan þeir nota táknin, það er aftur á móti ógjörningur að ætla að tala ensku og spænsku samtímis.

Í ljós kom að grátt efni í heila þeirra sem töluðu ensku og spænsku var meira í ennis- og hvirfilblaði heilans en hinna hópanna. Þessi svæði eiga þátt í verkstjórn heilans svo sem varðveislu minninga og lausn verkefna. Þeir sem töluðu ensku og táknmál höfðu aftur á móti ekki marktækt meira af gráu efni en þeir sem töluðu eitt tungumál og draga vísindamennirnir þá ályktun að það að tala tvö tungumál upphátt sé það sem hefur áhrif á gráa efni heilans en ekki sá aukni orðaforði sem fylgir tvítyngi.