Mynd: Shutterstock
Mynd: Shutterstock

Í fyrsta sinn hefur vísindamönnum tekist að kortleggja útbreiðslu HIV veirunnar í hinum vestræna heimi, eftir að veiran náð til Bandaríkjanna á áttunda áratug síðustu aldar.

Í grein sem birt var í tímaritinu Journal of Molecular Epidemiology and Evolutionary Genetics of Infectious Diseases kemur fram að HIV veiran barst til Vestur-Evrópu nokkrum sinnum á áttunda og níunda áratugnum. Aðra sögu er að segja um Mið- og Austur-Evrópu sem var einangruð snemma á útbreiðslutímanum. Þar lét veiran ekki mikið á sér bera fyrr en á tíunda áratugnum.

Eins og gefur að skilja var verkefnið stórt og liggur gríðarlega mikil vinna að baki niðurstöðunum. Með því að greina erfðaefni hátt í 9.000 veira og kortleggja stökkbreytingar gat rannsóknarhópurinn meðal annars greint að landstjórnmálalegir atburðir, svo sem fall járntjaldsins, höfðu mikil áhrif á ferðir manna innan Evrópu og þar með veirunnar líka.

Vitað er að HIV-1 veiran af undirtegund B barst fyrst til Bandaríkjanna frá Afríku í gegnum Haítí en fram að þessu hefur verið óljóst hvernig veiran barst frá Bandaríkjunum til Evrópu. Á niðurstöðunum má sjá að HIV veiran dreifðist eftir ákveðnu mynstri sem er í samræmi við landstjórnmálalega þætti síðustu 50 ára. Í því samhengi má nefna þætti á borð við fólksflutninga, ferðamennsku og verslun.

Sérstaka athygli vekur hvernig pólitískt ástand heimsálfunnar virðist hafa haft áhrif á útbreiðslu veirunnar í Evrópu, svo sem áðurnefnt fall járntjaldsins. Auk þess virðist Spánn hafa verið einskonar miðstöð HIV smita og skipst á veirustofnum við mörg önnur lönd. Rannsóknarhópurinn dregur þá ályktun að þetta megi að hluta til rekja til vinsælda landsins sem ferðamannastaðar og sýnir þetta hvernig ferðamennska getur haft áhrif á útbreiðslu sjúkdóma.

Rannsóknarhópurinn segir að niðurstöðurnar styðji það að stefnumótun í stjórn sjúkdómafaraldra ættu að vera á heimsvísu og fela í sér stjórnmálafræðilega og félaghagfræðilega þætti, enda getur faraldur í áhrifaríku landi haft víðtæk áhrif á heimsvísu.