Þegar flestir hugsa um ofurfæðu er ólíklegt að úlfaldamjólk komi upp í hugann. Þrátt fyrir það gefa rannsóknir til kynna að mjólk úr úlföldum geti gagnast þeim sem greinst hafa með sykursýki 2.  

Erfitt að sannreyna áhrif einstakra matvæla

Með reglulegu millibili birtast fréttir sem upphefja ágæti ákveðinna matvæla sem eiga að hafa jákvæð áhrif á heilsu okkar. Vandinn sem fylgir slíkum yfirlýsingum er að afar erfitt reynist að sannreyna hvort og þá hvers vegna ákveðin matvæli hafa slík áhrif.

Ástæðuna má rekja til þess að þegar áhrif matvæla á heilsu okkar eru skoðuð eru margar aðrar breytur sem spila inn í. Þarf má meðal annars nefna lífstílstengda þætti einstaklinga á borð við hreyfingu og mataræði að öðru leiti.

Það sama er upp á teningnum þegar kemur að úlfaldamjólk. Rannsóknir á úlfaldamjólk hafa í gegnum tíðina gefið til kynna að inntaka á henni geti haft jákvæð áhrif heilsu einstaklinga sem greinst hafa með sykursýki 2 en fram að þessu hefur lítið verið vitað um það af hverju og hvaða eiginleikar mjólkurinnar það eru sem eiga þar í hlut.

Eitt innihaldsefni skoðað

Mjólk er í eðli sýnu tiltölulega flókin afurð. Hún samanstendur meðal annars af lípíðum, próteinum, vítamínum og steinefnum. Að auki inniheldur hún ónæmisglóbúlín sem eru mótefni framleidd af plasmafrumum.

Vegna þess hversu flókin mjólk er í uppbyggingu ákvað rannsóknarhópur við Cardiff Metropolitan University að skoða aðeins eitt innihaldsefni úlfaldamjólkur og áhrif þess á bólgur tengdar sykursýki: lípíð, eða fituefni.

Tengsl lípíða og sykursýki

Bólga er mikilvægt svar líkamans við sýkingum. Hún getur þó einnig verið neikvæð og er meðal annars þekkt að offeitir einstaklingar og þeir sem glíma við sykursýki geta haft krónískar bólgur í líkamanum án þess að sýking sé til staðar.

Þessar bólgur get leitt til neikvæðra fylgikvilla sem geta fylgt sykursýki. Þar ber helst að nefna hjartasjúkdóma og heilablóðföll.

Með þetta í huga vildi rannsóknarhópurinn kanna hvort lípíð í úlfaldamjólk gætu haft áhrif á frumur sem nefnast stórátfrumur. Stórátfrumur er meðal annars að finna í kviðfitu og spila stórt hlutverk í myndun á bólgu.

Næringarík mjólk

Úlfaldamjólk er í eðli sínu uppfull af næringarefnum, enda til þess gerð að koma kálfum á legg. Hún inniheldur meðal annars hátt hlutfall af C vítamíni, járni, kalki, insúlíni og próteini. Mjólkin er auk þess töluvert fituminni en kúamjólkin sem við eigum að venjast.

Fitan sem finnst í úlfaldamjólk er einnig ólík þeirri sem kúamjólk inniheldur vegna þess að í henni er að finna hærra hlutfall af fjölómettuðum fitusýrum. Fjölómettaðar fitusýrur eru, ólíkt mettuðum fitusýrum, taldar holl fita.

Minna bólgusvar

Til þess að kanna áhrif fitusýra á stórátfrumur voru frumurnar settar í frumurækt sem innihélt lípíð úr úlfaldamjólk. Annarsvegar innihélt frumuræktin ómettaðar fitusýrur, fjölómettaðar fitusýrur eða blöndu af hvoru tveggja.

Í ljós kom að fitusýrur úr mjólkinni minnkuðu bólgusvar stórátfrumna. Áhrifin voru þó meiri í blöndu beggja gerða af lípíðum en þegar aðeins var um að ræða ómettaðar fitusýrur.

Enn ekki sannreynt á mannfólki

Þessi rannsókn átti sér aðeins stað á tilraunastofu og því er ekki hægt að segja til um það hvort það sama væri upp á teningnum í mannslíkamanum. Ef hægt væri að sýna fram á sambærileg áhrif í mannfólki gæfi það til kynna að mjólkin geti komið í veg fyrir eða dregið úr bólgum tengdum sykursýki.

Of snemmt er að draga ályktanir út frá þessum niðurstöðum um ágæti úlfaldamjólkur en ef rétt reynist er ekki ólíklegt að úlfaldamjólk gæti notið vaxandi vinsælda í framtíðinni.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.