Mynd: Sparkonit
Mynd: Sparkonit

Stofnfrumumeðferðir hafa verið heitt umræðuefni síðastliðinn áratug eða svo. Vísindasamfélagið hefur verið gagnrýnt fyrir seinagang og tregðu hvað varðar meðferðir með stofnfrumum. Einn vísindamaður, bandarískur læknir að nafni Jeffrey N. Weiss, hefur langt í frá gerst sekur um tregðu í þessum efnum og gæti jafnvel talist kærulaus.

Þessi læknir stundar nú stofnfrumumeðferðir, við John Hopkins sjúkrahúsið, á blindum sjúklingum sínum, gegn rúmlega tveggja milljón króna greiðslu. Meðferðin hefur ekki verið prófuð í dýrum og Weiss segist nú þegar hafa sent tæplega 300 einstaklinga í gegnum meðferðina, án þess að prófa hana með tilliti til öryggis á litlum hópi sjúklinga. Þá hefur meðferðin ekki verið prófuð með tilliti til virkni á fólki sem fær annað hvort stofnfrumumeðferð eða lyfleysumeðferð. Það má því segja að þessi meðferð ætti alls ekki að vera í boði, en Weiss hefur samt sem áður tekist að smeygja sér í gegnum kerfið.

Þar sem litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á þessari meðferð þá getur læknirinn heldur ekki svarað því hvernig meðferðin virkar, hvað það er nákvæmlega sem er að gerast. En við framkvæmd meðferðarinnar eru stofnfrumur einangraðar úr beinmerg sjúklingsins en þeim er svo komið fyrir á þremur mismunandi stöðum í auga sjúklingsins, við sjóntaugina, í sjónhimnunni og við sjónhimnuna.

Einn af sjúklingum Weiss, Vanna Belton sagði sögu sína í Baltimore Sun. Hún missti sjónina skyndilega árið 2009, í fyrstu var henni sagt að góðar líkur væru á að hún fengi sjónina aftur en þær vonir kulnuðu fljótt. Það var svo árið 2014 sem hún fór í stofnfrumumeðferð hjá Weiss og í dag sér hún orðið útlínur, sem er mikil framför frá því sem hún sá áður. Þó hægra og vinstra augað hafi fengið sitt hvora meðferðina, s.s. í öðru þeirra var stofnfrumun komið fyrir í sjóntauginni en hinu sjónhimnunni, þá hafa bæði augun tekið við sér, en engin raunveruleg skýring er á því.

Weiss hefur nú þegar birt grein þar sem hann og rannsóknarhópur hans lýsir tilfelli Belton en fleiri sjúklingar hafa undirgengist meðferðina eða tæplega 300 manns. Enn sem komið er virðist meðferðin hafa gengið vel hjá Belton og vonandi heldur sjónin hjá henni áfram að batna.

Við megum þó ekki gleyma því að það er ástæða fyrir því að innan vísindanna eru gerðar strangar kröfur um prófanir á öllum nýjum meðferðum áður en þær fara í þann fasa sem Weiss er nú staddur í. Ástæðan er m.a. sú að án slíkra rannsókna er ekki hægt að vita hvort eða hvernig meðferðin hefur raunverulega áhrif, áhrifin gætu verið tilkomin vegna einhvers annars en stofnfrumnanna. En helsta ástæðan er að kanna hvort meðferðin sé örugg og þá sérstakllega til lengri tíma.

Mjög þekkt nýlegt dæmi, sem skekur nú vísindaheiminn átti sér stað á Karonlinska Institute, en þar framkvæmdi læknir barkaígræðslur án þess að prófa meðferðina til fullnustu áður en hann lét til skarar skríða. Þó það megi færa rök fyrir því að prófanir á nýjum meðferðum taki oft alltof langan tíma þá er alls ekki ástæða til að sleppa þeim algjörlega og betra er að láta sjúklingana njóta vafans, sér í lagi þegar ekki er um lífshættulegt ástand að ræða.