Fæðuofnæmi fer vaxandi í heiminum og þá sérstaklega meðal ungra barna. Ástæðurnar eru fjölþættar og að mestu leiti óskilgreindar, en fátt er vitað um hvers vegna ofnæmistilfellum fer fjölgandi. Vitað er að ofnæmi getur að einhverju leiti legið í erfðaþáttum, en foreldrar sem eru með ofnæmi eru líklegri til að eignast börn með ofnæmi, samanborið við foreldra sem ekki eru með ofnæmi.

Þó erfðaþættir geti að hluta til skýrt ofnæmisviðbrögð, þá er mjög líklegt að umhverfisþættir stjórni þarna einnig miklu og hafa margir til að mynda nefnt að of mikið hreinlæti geti dregið úr getu barnanna til að verjast utanaðkomandi þáttum. Af misjöfnu þrífast börnin best og allt það. Nýleg rannsókn rennir að einhverju leiti stoðum undir þær kenningar, en þar er sýnt fram á hvernig erfðaþættir og tveir umhverfisþættir geta saman stuðlað að fæðuofnæmi.

Í rannsókninni sem birt er í Journal of Allergy and Clinical Immunology eru mýs með ákveðna genagalla útsettar fyrir þáttum sem algengt er að ungabörn séu útsett fyrir, annars vegar sápu sem finnst í blautþurrkum og hins vegar ónæmisvökum sem getur verið til staðar í umhverfi barnanna, svo sem á húð þeirra sem annast börnin eða bara í rykinu í kringum þau.

Genagallarnir sem mýsnar bera eru í genunum Filaggrin (Flg) og Transmembrane protein 79 (Tmem79), en afurðir þessara gena gegna hlutverki við að þétta húðina. Þau taka þátt í að flétta saman frumurnar sem mynda húðina og þegar þau eru ekki til staðar verður húðin viðkvæmari fyrir umhverfisþáttum. Segja má að þegar þessi prótín virka ekki rétt þá sé húðin gegndræpari en hún er undir venjulegum kringumstæðum.

Ástæðan fyrir því að mýs með genagalla í þessum tilteknu genum voru viðfangsefni rannsóknarinnar er sú að um þriðjungur barna sem greinast með fæðuofnæmi eru með galla í genum sem taka þátt í að flétta saman frumur til að mynda húð.

Í dag notast foreldrar mikið við blautklúta til að þrífa börnin sín. Í blautklútunum er að finna sápu sem kemur sér vel þegar ná á óhreinindum í burtu. Því miður kemur það sér ekki vel fyrir húð sem þegar er viðkvæm vegna erfðagalla. En sápa sem oft verður eftir á húð barnanna getur gert húðina enn gegndræpari, sérstaklega þegar prótínin sem þétta húðina eru ekki að fullu virk.

Þegar mýs með galla í Flg og Tmem79 voru útsett fyrir bæði sápu eins og finnst í blautklútum og ónæmisvöldunum eggjum eða hnetum voru þær í meiri áhættu að þróa með sér ofnæmi gegn áður nefndum ónæmisvöldum. Mýsnar voru fyrst ekki látnar borða egg eða hnetur, heldur fundust prótín úr hvorutveggja í umhverfi þeirra. Hins vegar þegar mýsnar fengu svo að smakka annað hvort, lét ónæmissvarið ekki á sér standa.

Telja höfundar greinarinnar að þarna sé að finna hluta af svarinu við því hvers vegna ofnæmistilfellum fjölgar. Húð barnanna er óþétt og með notkun blautþurrka er ýtt undir þann galla í líffærinu. Þegar barnið kemst svo í snertingu við ónæmisvald, t.d. vegna snertingar frá einhverjum sem var að neyta vöru með ónæmisvaldinu, síast örlítið í gegnum húð barnsins.

Ónæmiskerfi barnsins skynjar þetta sem utanaðkomandi hlut og þegar barnið kemst loks í snertingu við matvælin með því að borða þau hefur líkaminn nú þegar fest þau í minni sem hættuleg utanaðkomandi efni.

Enn sem komið er á eftir að skilgreina hvað á sér stað á sameindastiginu, hvaða gen eru tjáð og á hvaða tjáningu er slökkt. Einnig er rétt að ítreka að rannsóknin sem vitnað er til hér er framkvæmd í músum með galla í tveimur af ótal genum sem koma við sögu í byggingu húðarinnar.

Að öllum líkindum er sambandið flóknara en þessi rannsókn gefur til kynna, en ef hún reynist sannspá er líklega betra að þvo alla sápu af börnum eftir að búið er að þvo þeim og muna að þvo sér vel um hendurnar áður en maður handleikur lítil börn. Þetta eru að minnsta kosti þættir sem við getum haft stjórn á.