pills-1354782_1920

Hormónagetnaðarvarnir eru algengar um allan heim. Þær er að finna í ýmsum formum en pillan, hringurinn og hormóna lykkjan eru allt dæmi um slíkar getnaðarvarnir. Nú hefur rannsókn vísindamanna við Háskólann í Kaupmannahöfn sýnt fram á að konur sem nýta sér hormónagetnaðarvarnir eru líklegri til að greinast með þunglyndi en þær sem gera það ekki. Unglingsstúlkur virðast vera í sérstökum áhættuhópi.

Rannsóknin stóð yfir á árunum 2000 til 2013 og náði til yfir milljón kvenna á aldrinum 15 til 34 ára . Rannsóknarhópurinn hafði aðgang gagnagrunni heilbrigðiskerfisins í Danmörku þar sem þeir gátu fylgst með því hvaða lyf voru skrifuð upp á fyrir konurnar á tímabilinu.

Um 55% þátttakenda notaði hormónagetnaðarvarnir að einhverju marki á meðan á rannsókninni stóð. Í ljós kom að þær konur sem notuðu hormónagetnaðarvarnir voru 20% líklegri til að vera greindar með þunglyndi en þær sem ekki nýttu sér slíkar getnaðarvarnir á tímabilinu. Fyrir þær konur sem voru á pillunni voru líkurnar 23% meiri en 34% fyrir þær sem tóku inn mini pilluna.

Mini pillan inniheldur eingöngu prógesterón á meðan hefðbundna pillan inniheldur bæði prógesterón og estrógen. Fyrri rannsóknir hafa bent til þess að aukið prógesterón geti haft áhrif á lund svo hugsanlega var það prógesterónið sem jók líkurnar á þunglyndisgreiningu kvenna á mini pillunni.

Það sem hefur vakið mesta athygli í niðurstöðunum eru þær niðurstöður sem ná til unglingsstúlkna. Þær stúlkur sem tóku inn pilluna voru 80% líklegri til að vera greindar með þunglyndi en þær sem ekki tóku inn hormónagetnaðarvarnir.

Fram að þessu hafa niðurstöður rannsókna á hormónagetnaðarvörnum og þunglyndi verið misvísandi. Rannsókn Háskólans í Kaupmannahöfn hefur þó tvo kosti framyfir fyrri rannsóknir. Annarsvegar voru þátttakendur yfir milljón talsins sem eykur trúverðugleika hennar en auk þess höfðu vísindamennirnir aðgang að heilsufarsupplýsingum kvennanna svo ekki þurfti að treysta á minni þátttakenda til að svara spurningum um lund og lyfjainntöku.

Þrátt fyrir það er enn óvíst hvort hægt sé að kenna hormónagetnaðarvörnum um aukna tíðni þunglyndisinsgreininga. Hér er aðeins um fylgni að ræða og niðurstöðurnar segja því ekki til um hvað það er sem veldur. Rannsóknin vekur þrátt fyrir það upp spurningar um áhrif þess að nota hormónagetnaðarvarnir, sér í lagi á unglingsárunum, en frekari rannsókna er þörf til að skera úr um það hvort þær séu raunverulega sökudólgurinn.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í JAMA Psychiatry.