gorilla-03

HIV veiran hefur fjórar stofna (M, N, O og P) og hafa vísindamenn vitað í nokkurn tíma að tveir þeirra bárust í menn úr simpönsum (M og N). Þangað til nú, hefur uppruni hinna tveggja stofnanna verið óljós.

Nú hafa niðurstöður rannsóknarhóps við háskólann í Montpellier í Frakklandi verið birtar í Proceedings of the National Academy of Sciences sem sýna fram á að O og P stofnar veirunna bárust í menn úr vesturláglendisgórillum (Gorilla gorilla gorilla) í suður Kamerún. Líklegast er talið að menn hafi smitast við það að borða villibráð.

Rannsóknin byggði á því að erfðagreina saursýni úr górillum í Mið-Afríku til að athuga hvort apaafrbrigði sjúkdómsins, SIV, (Simian Immunodeficiency Virus) væri til staðar í sýninu. Í ljós kom að bæði O og P stofnar voru til staðar í sýnum úr vesturláglendisgórillum sem bendir til þess að þeir hafi borist í menn frá þeim.

Mikilvægt er að vita hver uppruni stofna veirunnar er til að skilja sjúkdóminn betur og geta gert meðferðarúrræði skilvirkari. M stofn veirunnar er langaalgengastur en hann hefur sýkt yfir 40 milljón manna um allann heim. Næst á eftir er það O stofninn sem hefur sýkt um 100.000 manns í Afríku en P og N stofnarnir hafa eingöngu sýkt fáa einstaklinga. Enn hefur ekkert fundist í erfðaefni veirunnar sem skýrir hvers vegna M stofninn hefur valdið faraldri en ekki hinir þrír.

Flestir nýtilkomnir sjúkdómar (e. emerging diseases) í mönnum eiga uppruna sinn í dýrum og því eru rannsóknir sem þessar mikilvægur liður í því að skilja faraldsfræði þeirra. Með aukinni þekkingu er auðveldara meta sjúkdóma sem koma fram í framtíðinni. Simapansar og górillur eru mikilvægar í þessu samhengi enda þær geta borið með sér aðra veirusjúkdóma en SIV sem smitast í menn og hugsanlega valdið faraldri.