epigenomics

Utangenaerfðir eru nokkurs konar fingraför á erfðaefninu sem segja til um hvaða gen á að tjá og í hvaða magni. Allar frumur líkamans innihalda sömu DNA röð en til að ákvarða hvernig frumugerð er mynduð eru mismunandi gen tjáð. Stjórnun á þessu kallast utangenaerfðir vegna þess að þær eru merkingar utaná erfðaefninu. Stundum eru sem dæmi hengdir ákveðnir efnahópar á litningasvæðið þar sem á að hefja tjáningu.

Nýlega var opnaður gagnabanki í NCBI (National Center for Biotechnology Information), sjá vefsíðu gagnabankans hér. Inní þessum gagnabanka eru utangenaerfðir yfir 100 frumugerða.

Til að búa til svona gangabanka þarf samvinnu margra rannsóknahópa sem allir eru að rannsaka utangenaerfðir. Við þetta verkefni unnu 88 rannsóknahópar víðs vegar um heiminn og var rannsóknin styrkt af NIH (National Institute of Health).

Við sjúkdóma eins og krabbamein verða oft breytingar á erfðaefninu, stökkbreytingar og annað sem veldur því að vefurinn hættir að haga sér eins og til er ætlast og myndar krabbamein. Stundum verða líka breytingar á utangenamerkingunum sem leiða til breytinga á tjáningu gena sem leiðir einnig til krabbameinsmyndunar. Rannsóknir á utangenaerfðum eru ekki jafn langt á veg komnar og rannsóknir á DNA röðum gena enda er þar um mun flóknara munstur að ræða, þar sem utangenaerfðir eru mismunandi milli frumugerða. Þessi nýji gagnabanki er því mikilvægt tól fyrir vísindamenn fyrir komandi rannsóknir á hinum ýmsu sjúkdómum sem hrjá mannskepnuna.

Fyrir áhugasama má nálgast greinina um þetta verkefni hér en hún birtist í Nature þann 18 febrúar síðastliðinn. Mynd hér að ofan er fengin úr greininni.