growing a limb

Þeir sem bíða eftir líffærum hafa nú þegar tækifæri á að fá grætt í sig líffæri sem hefur verið búið til eða ræktað á rannsóknarstofu. Á þetta þó einungis við um ígræðslu einfaldra líffæra ef svo má segja eins og æða eða vöðva, en nú hefur rannsóknarhópi í Massachusetts General Hospital tekist að rækta heilan útlim.

Að rækta líffæri eða útlim er mjög flókið þar sem frumurnar þurfa að fá upplýsingar um hvaða gen þær eiga að tjá á hvaða tímapunkti í þroska til að mynda svona flókin fyrirbæri. Með áralöngum rannsóknum hafa vísindamenn sankað að sér upplýsingum um það hvernig hægt er að tala við frumurnar og fá þær þannig til að þroskast á þá átt sem óskað er eftir. Með þessu móti er þess vegna hægt að fá vefjasérhæfðar stofnfrumur til að mynda ný líffæri eða útlimi.

Hópur Harald C. Ott notaðist við útlim af rottu, útlimurinn samanstóð einungis af grunnstoðum æða og taugakerfisins. Síðan voru vöðva og æðafrumur úr annarri rottu, ræktaðar upp og notaðar til að byggja utan á vefinn.

Rannsóknin sýnir að þekkingin til að sérhæfa vef til að mynda útlim er til staðar að miklu leyti. Næstu skref væri að endurtaka leikinn með mannafrumum og sjá hvort hægt sé að stjórna þeim á sama hátt og rottufrumunum. Vonir standa svo til að hægt verði að rækta nýja útlimi í framtíðinni og það heyri því sögunni til að missa útlim.