Mynd: The Scientist
Mynd: The Scientist

Eins og lesendur Hvatans, og vonandi fleiri, hafa sjálfsagt gert sér grein fyrir stöndum við frammi fyrir þeim alvarlega vanda að fleiri og fleiri bakteríur búa yfir sýklalyfjaónæmi. Því miður hafa þessir ofurstofnar jafnvel náð að drepa fólk.

Vísindamenn vinna af kappi við að kortleggja sýklalyfjaónæmi baktería og finna ný sýklalyf til að takast á við þennan vanda. En engin ein lausn mun duga gegn þessari ógn. Þess vegna beina vísindamenn spjótum sínum í allar áttir og sú nýjasta byggir á öðrum verum sem við þekkjum einnig sem sýkingavalda, nefnilega veirum.

Veirur eru lífsform sem reiðir sig á hýsil til að lifa. Við þekkjum helst veirur sem reiða sig á mannafrumur sem hýsil og valda þannig veikindum, allt frá kvefi til HIV. En veirur eru ekki bara fyrirbæri sem sýkir menn. Veirur hafa þróast með öllum lífsformum á jörðinni og þær eru einnig til sem sýkja bakteríufrumur, en slíkar veirur eru einnig kallaðar bakteríufagar.

Í rannsókn sem unnin var við Baylor College of Medicine var notast við bakteríurfaga til að draga úr sýkingum sem komið hafði verið fyrir í músum. Þegar fögunum var komið fyrir í sýktum músum minnkaði sýkingin marktækt, sem sýnir að þessi sérhæfði bakteríusýkill getur hjálpað til við að draga úr sýkingu þar sem sýklalyf virka ekki.

Næstu skref eru þó að finna hvernig hægt er að nýta það jákvæða úr veirunum án þess að hafa áhrif á mannslíkamann. Því þó bakteríufagar geti ekki sýkt mannafrumur þá skynja þær fagana samt sem áður sem óþekkt fyrirbæri og reyna að eyða því. Áður en hægt verður að nota faga sem meðferðarúrræði við sýkingum þarf m.a. að komast í kringum þetta. Við fylgjumst spennt með.