Blood-Test

Veirusýkingar, sem og aðrar sýkingar, skilja eftir spor sín í ónæmiskerfi okkar. Það er ekki neikvætt, þvert á móti er það jákvætt því sporin sem þau skilja eftir eru mótefni. Mótefni eru tæki ónæmiskerfisins til að muna hvaða sýklar hafa ráðist inní líkamann og á þann hátt getur ónæmiskerfið varist sýklinum komi hann nokkurn tíman til skjalana aftur. Hingað til hefur verið hægt að rekja sýkingarsögu einstaklinga með því að skima fyrir sérhæfðum mótefnum í blóði, með tímafrekum og fyrirhafnarmiklum aðferðum. En ný aðferð sem nýlega var kynnt til sögunnar í nýútkomnu tölublaði af Science gerir slíka skimun mun auðveldari og meðfærilegri.

Tæknin kallast VirScan og er hugverk vísindahóps við Howard Hughes Medical Institute. Með VirScan er hægt að skima einn blóðdropa úr einstaklingi fyrir mótefnum úr miklum fjölda mannaveira. VirScan inniheldur mótefnavaka úr yfir 100 veirum sem vitað er að smita menn. Mótefnavakarnir eru tjáðir í svokölluðum bakteríufögum. Hver og einn bakteríufagi hefur að geyma erfðaefni úr einni sérstakri veiru og framleiðir hann því mótefnavaka sem er sértækur fyrir þá veiru. Ef mótefni úr blóði binst við mótefnavaka er hægt að fara til baka í bakteríufagann sem mótefnavakinn tilheyrir og raðgreina erfðaefnið til að bera kennsl á veiruna sem erfðaefnið er upprunnið úr.

Það mætti því segja að VirScan sé yfirgripsmikil útgáfa af þeim prófum sem nú þegar hafa verið notuð. Í fyrri prófum er einungis unnið með eitt mótefni í einu, þar sem skilvirk og hentug leið eins og bakteríufagar hafa ekki verið til staðar. Þar af leiðandi var ekki hægt að notast við marga mótefnavaka í einu prófi.

Vísindahópurinn við Howard Hughes Medical Institute hefur nú þegar prófað VirScan á hátt í 600 manns í Bandaríkjunu, Suður-Afríku, Tælandi og Perú. Niðurstöðurnar gefa til kynna að prófið sé sértækt, greini veirurnar rétt, og skilvirkt, greini öll mótefni sem eru til staðar í blóðinu.

Próf sem þetta er að auki mun ódýrara en þau próf sem áður hafa verið notuð. Það verður því vonandi bráðum hægt að skrá alla veiru-sögu einstaklinga með einum blóðdropa og það fyrir aðeins örfáa þúsundkalla. Ekki skemmir fyrir að prófið tekur ekki nema 3 daga, gefið að raðgreiningin gangi smurt fyrir sig.