smelling

Eitt af kerfunum okkar til að skynja heiminn er lyktarskynið. Lykt getur ekki bara sagt okkur hvort við fáum eitthvað gott í matinn eða varað okkur við því að einhvers staðar er kviknað í. Lykt getur einnig kallað fram minningar og tilfinningar.

Þó svo að maðurinn nýti lyktarskynið sennilega mun minna í dag, samanborið við áður en hugtakið „síðasti söludagur“ varð til þá er þetta líffæri samt ótrúlega margslungið. Lyktarviðtakarnir skipta þúsundum og fjöldi þeirra og samsetning getur haft mikið um það að segja hvaða lykt við finnum.

Það er víst svo að fæstir skynja lykt á sama hátt. Við erum öll einstök hvað varðar röðun lyktarviðtaka okkar í skynfærinu. Hvaða viðtakar eru tjáðir, þ.e.a.s. til staðar, og í hvaða magni, ræðst af umhverfi okkar, samkvæmt rannsókn frá rannsóknarhópi við Wellcome Trust Sanger Institute.

Í rannsókninni var notast við mýs með höfðu annars vegar sama erfðafræðilega bakgrunn og hins vegar mismunandi erfðafræðilegan bakgrunn. Mýsnar voru örvaðar með mismuandi lyktarumhverfi og síðan var skoðað hvernig tjáningin var á lyktarviðtökum einstaklinganna í hverjum hóp fyrir sig.

Í ljós kom að líkindin með lyktarviðtökum var mest meðal þeirra músa sem fengu sams konar lyktarörvun. Mýs sem voru með sama erfðafræðilega bakgrunn tjáðu að einhverju leyti sömu viðtakana en magn hvers fyrir sig var að litlu leyti sambærilegt. Þær mýs sem voru með mismunandi erfðafræðilegan bakgrunn en voru örvaðar með sömu lykt sýndu því líkari tjáningu lyktarviðtaka. Með öðrum orðum, lyktarskynið mótaðist meira af umhverfi músanna en erfðum þeirra.

Þó mannfólkið sé vissulega ekki mýs þá eru mikil líkindi á milli lífveranna og því töluvert líklegt á að svipað munstur sé að finna hjá okkur. Lyktarskynið mótast að miklu leyti af umhverfinu en ekki erfðum. Þar að auki heldur mótun lyktarskynsins áfram út æviskeiðið. Þannig getur umhverfi okkar mótað genatjáningu okkar á lyktarviðtökum alla ævi. Það er því kannski spurning hvort hægt sé að örva lyktarskynið stöðugt með góðri lykt og minnka þannig skynjun okkar á vondri lykt. Slík tilraun væri í það minnsta mjög áhugaverð.