Mynd: WebMD
Mynd: WebMD

Zika veiran sem í byrjun árs olli mikilli skelfingu meðal almennings í Suður-Ameríku, vegna áhrifa hennar á fóstur, hefur ekki enn sungið sitt síðasta. Veiran heldur áfram að berast út en hennar helsti skaði er að börn mæðra sem smitast af veirunni fæðast gjarnan með svo kallað dverghöfuð. Dverghöfuð er það kallað þegar barn fæðist með óeðlilega lítið höfuð en orsakir þess geta verið af ýmsum toga. Nú hafa brasilískir vísindahópar birt grein þar sem víðtæk áhrif veirunnar á taugakerfið eru skilgreind enn betur.

Í rannsókninni voru mæður þar sem grunur lék á um zika veirusmit og börn þeirra skoðuð sérstaklega, með til dæmis ómskoðun og segulómun. Langflest barnanna sem höfðu komist í snertingu við zika veiruna í móðukviði fæddust með dverghöfuð, en það var þó ekki algilt. Öll börnin sýndu þó minnkun á ummáli heilans. Heili barnanna var yfirleitt óeðlilegur að því leiti að vökvafyllt rými hans voru oft stærri en gengur og gerist í eðlilegum heilum og þar að auki vantaði oft brautir milli svæða í heilanum sem eru nauðsynlegar fyrir eðlilega starfsemi hans.

Þessar niðurstöður gefa okkur betri yfirsýn yfir þau svæði heilans sem veiran beinist sérstaklega gegn. Sú staðreynd að svæði í heilanum ná ekki að tengjast sýnir okkur að frumurnar sem mynda taugakerfið ná ekki að klára þroska sinn eða komast ekki á milli staða í fósturþroska eins og þær eiga að gera.

Næstu skref rannsóknarhópanna er að skoða hvort hægt sé að tengja tímasetningu sýkingar við ákveðin svæði í heilanum sem skemmast en einnig að staðfesta niðurstöðurnar í stærra þýði. Með aukinni þekkingu á þessum sýkingum getum við mögulega komið í veg fyrir sýkingar eða reynt að hamla áhrifum þeirra á fósturþroska.