screen-shot-2016-11-29-at-21-19-00

Samkvæmt niðurstöðum yfirgripsmikillar rannsóknar við Harvard háskóla eru sálfræðingar engu nær því að geta spáð fyrir um líkur á sjálfsvígshegðun sjúklinga sinna nú en þeir voru fyrir 50 árum síðan. Þrátt fyrir miklar framfarir í heilbrigðisvísindum er skilningur á áhættuþáttum fyrir sjálfsvígshegðun enn stutt á veg kominn og hefur í raun staðið í stað í nokkra áratugi, að sögn fyrsta höfundar greinarinna Dr. Joseph Franklin.

Í rannsókninni greindi rannsóknarhópurinn 365 rannsóknir sem framkvæmdar voru á þessu sviði á síðustu 50 árum. Hópurinn kannaði hvort áhættuþættir á borð við þunglyndi, fyrri sjálfsvígstilraunir og lyfjamisnotkun gætu sagt til um sjálfsvígshugsanir og hegðanir yfir lengri tíma.

Niðurstöðurnar voru nokkuð sláandi því líkurnar á því að spá rétt fyrir um líkur á sjálfsvígshegðun voru sambærilegar því ef peningi væri kastað upp á.

Ástæðuna telur rannsóknarhópurinn megi rekja til þess að í rannsóknum á þessu sviði hafi gjarnan verið horft til aðeins eins áhættuþáttar í einu. Fæstir trúi því að aðeins einn þáttur mældur á einum tímapunkti sé orskavaldur sjálfsvígs mörgum árum seinna heldur sé fremur um samspil áhættuþátta og aðstæðna að ræða.

Franklin sagði um niðurstöðurnar: “Þetta var mjög auðmýkjandi – eftir áratuga rannsóknir hafa vísindin ekki gefið af sér neinar þýðingamiklar framfarir í sjálfsvígsspám.” Þrátt fyrir þetta bætti Franklin við niðurstöðurnar þýddu ekki að þær aðferðir sem til eru í dag til að meta áhættuna á sjálfsvígum séu gagnslausar. Hann mælir því með því að haldið sé áfram að styðjast við þær en undirstrikar mikilvægi þess að endurmeta þær.

Að lokum bendir Franklin á að á síðustu tveimur árum hafi vinna við reikniaðferðir sem samtvinna tugi eða jafnvel hundruði áhættuþátta til að spá fyrir um líkur á sjálfsvígshegðunum. Reikniaðferðirnar virka á svipaðan hátt og þær reikniaðferðir sem Google leitarvélin notar og hafa niðurstöður fram að þessu verið jákvæðar. Rannsóknirnar eru enn sem komið er stutt á veg komnar en fyrstu niðurstöður benda til þess að þær geti jafnvel spáð rétt fyrir um sjálfsvígshegðanir í yfir 80% tilfella.

Greinin birtist í tímaritinu Psycological Bulletin og má nálgast hana í heild sinni hér.