measles

Nú þegar ebólufaraldurinn virðist vera í rénun blasir annað og ekki síður hættulegt vandamál við. Bólusetningum barna í Vestur Afríku hefur verið hætt á meðan ebólufaraldurinn geisar og eru því fjölmörg börn á svæðinu óbólusett. Grein sem var birt í marstímariti Science varpar ljósi á þá hættu sem mislingar og aðrir sjúkdómar gætu valdið ef ekki er byrjað að bólusetja börn á ný.

Mörgum sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum hefur verið lokað og sjúklingar forðast þær stofnanir sem enn eru opnar af ótta við að smitast af ebólu. Þetta auk álags á heilbrigðiskerfið hefur orðið til þess að bólusetningar hafa setið á hakanum.

Samkvæmt Justin Lessler, einum höfunda greinarinnar, er algengt að mislingafaraldur brjótist út í kjölfar hamfara enda getur sjúkdómurinn breiðst út með mikið meiri hraða en margir aðrir sjúkdómar.

Rannsóknarhópurinn telur að ef bólusetningaátælun sé ekki bætt fljótlega gæti tilfelli mislinga orðið um 100.000 fleiri en ef ebólufaraldurinn hefði ekki átt sér stað og að 2.000 til 16.000 fleiri gætu látist af völdum mislinga. Þeir telja einnig að tíðni sjúkdóma líkt og mænusótt, kíghósti og barnaveiki gæti aukist til muna.