Mynd: University of Oxford
Mynd: University of Oxford

Vísindamönnum hefur tekist það sem lengi hefur verið talið ómögulegt – að búa til afkvæmi án þess að eggfruma komi við sögu. Tilraunin, sem gerð var á músum, leiddi af sér 30 heilbgriða músaunga. Mögulegt er að hægt verði að nýta svipaða tækni í mönnum í framtíðinni, þó langt sé í land.

Heppnaðist í 24% tilvika
Undir venjulegum kringumstæðum verður fósturvísir til þegar sáðfruma frjóvgar egg. Í rannsókninni tókst vísindamönnum við Háskólann í Bath aftur á móti að fá eggfrumur músa til að þroskast án þess að frjóvgun ætti sér stað. Við það myndaðist einskonar „gervi“ fóstuvísir (e. pseudo-embryo) sem hafði svipaða eiginleika og aðrar frumur líkamans, til dæmis húðfrumur.

Með því að frjóvga frumurnar tókst rannsóknarhópnum að búa til heilbrigð músafóstur og virkaði meðferðin í 24% tilfella. Mýsnar 30 sem fæddust á þennan hátt höfðu sambærilegar lífslíkur og aðrar mýs og gátu átt heilbrigð afkvæmi.

Niðurstöðurnar þykja benda til þess að hægt verði að búa til mannsfóstur í framtíðinni með því að nota aðrar frumur en eggfrumur. Tæknin kæmi ekki til með að útrýma þörfinni fyrir kvenkynið enda þyrfti kona eftir sem áður að bera barnið og koma því í heiminn.

Framtíðarsýn
Í samtali við BBC sagði Dr Tony Perry, einn höfundur greinarinnar: “Þetta er í fyrsta sinn sem einhverjum hefur tekist að sýna að eitthvað annað en egg geti sameinast sæði á þennan hátt og gefið af sér afkvæmi. Þetta byltir hugsunarhætti sem hefur verið við lýði í næstum 200 ár.”

Ef svo færi að tæknin nýtist í mönnum í framtíðinni gæti hún gjörbylt frjósemismeðferðum. Mögulegt gæti orðið fyrir samkynhneigða karlmenn að eiga barn úr erfðaefni beggja einstaklinga en einnig gæti orðið hægt að sameina sáðfrumu og líkamsfrumu eins einstaklings til að búa til fósturvísi. Í þeim tilfellum væri útkoman barn sem væri nær því að vera tvíeggja tvíburi foreldrisins fremur en klón. Slík tækni gæti til dæmis nýtt einstæðum karlmönnum.

Tæknin gæti að auki nýst konum sem glíma við ófrjósemi sem gætu þá notað aðrar líkamsfrumur en egg til að mynda fósturvísa.

Enn önnur leið til að nýta tæknina gæti verið að nýta hana á dýrum í úrdýmingarhættu sem tól til að halda stofnum við.

Þó niðurstöðurnar séu vissulega spennandi bendir rannsóknarhópurinn á að eins og staðan er í dag sé aðeins um fjarlægar tilgátur að ræða. Rannsóknir af þessu tagi munu þó vafalaust leiða ýmislegt í ljós varðandi frjóvgun og möguleikana á því að endurforrita frumur almennt.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í Nature Communications.