Mynd: Marjan_Apostolovic/Getty Images
Mynd: Marjan_Apostolovic/Getty Images

Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (PCOS) er algengt heilkenni sem fjöldi kvenna glímir við. Þrátt fyrir algengi þess hefur reynst erfitt að finna orsök PCOS en niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að það gæti átt upptök sín í heilanum, frekar en í eggjastokkunum sjálfum.

Um ein af hverjum 10 konum glímir við PCOS og hefur heilkennið ýmis einkenni, allt frá þyngdaraukningu, stórum blöðrum á eggjastokkum, bólur, hárvöxt á andliti, þunglyndi, ófrjósemi og þungar og sársaukafullar blæðingar. Enn sem komið er eru úrræði fá en algengt er að konur með PCOS fái hormónameðferð, til dæmis pilluna, til að halda einkennum í skefjum.

Í rannsókn University of New South Wales í Ástralíu komst hópur vísindamanna að því að í músum sem ekki hafa viðtaka fyrir andrógen hormónum í heilanum þróa ekki með sér PCOS, ólíkt músum sem hafa slíka viðtaka á eggjastokkum. Andrógen eru hormón á borð við testosterón sem almennt eru tengd við karlmenn en finnast þó einnig í kvenfólki og hefur ofgnótt þeirra í konum verið tengd við PCOS.

Fjórir hópar músa voru bornir saman. Fyrsti hópurinn samanstóð af eðlilegum músum (samanburðarhópi), annar af músum sem voru erfðabreyttar svo þær höfðu enga andrógen viðtaka í líkama sínum, þriðji hópurinn af músum sem höfðu enga andrógen viðtaka í heilanum og sá fjóðri af músum sem ekki höfðu viðtakana á eggjastokkum.

Reynt var að framkalla PCOS í músunum með því að gefa þeim stóran skammt af andrógenum. Líkt og búist var við þróaði samanburðarhópurinn með sér PCOS en þær mýs sem ekki höfðu andrógen viðtaka í heila eða í líkamanum almennt fengu ekki heilkennið. Hópurinn þar sem viðtakar höfðu aðeins verið fjarlægðir af eggjastokkum fengur aftur á móti PCOS en þó í minni mæli en samanburðarhópurinn.

Áður var vitað að tengsl væru á milli aukningar í andrógena og PCOS en ekki hvers vegna. Rannsóknin sýndi því fram á að það var rétt ályktað en auk þess að viðtakar í heilanum spila veigamikið hlutverk.

Þó rannsóknin hafi aðeins verið framkvæmd í músum vekja niðurstöðurnar vonir um að hægt sé að nýta þessa nýju þekkingu til að finna meðferðarúrræði við PCOS, til dæmis með því að stöðva ofgnótt andrógena í heila.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu PNAS.