Mynd: Tico Times
Mynd: Tico Times

Zika veiran hefur valdið vísindamönnum heimsbyggðarinnar miklum heilabrotum síðastliðið ár eða svo. Mörg tilfelli hafa komið uppá borð lækna sem benda til þess að veiran valdi svokölluðum dverghöfðum. Eftir margar tilraunir með veiruna hefur nú loks tekist að safna nægjanlegum gögnum til að vísindaheimurinn geti með fullri vissu sagt að sökudólgurinn er fundinn. Zika veiran veldur fósturskaða.

Til að komast að þessari niðurstöður tók hópur sem starfar við Centers for Disease Control and Prevention saman niðurstöður rannsókna á veirunni sem framkvæmdar hafa verið víðsvegar um heiminn. Rannsóknirnar hafa verið af ýmsum toga meðal annars hafa fósturstofnfrumur verið smitaðar með veirunni, í frumurækt, til að fylgjast með því hvaða áhrif sýkingin hefur á þroska frumnanna.

Rauði þráðurinn er að zika veiran getur valdið skaða en það sem kannski er merkilegast í þessu öllu er að skaðinn er ekki alltaf hinn sami og stundum er hann ekki einu sinni til staðar. Að miklu leyti má skýra það með tímasetningu veirusýkingarinnar en í gegnum alla meðgönguna er fóstrið á mismunandi þroskastigi og zika veiran virðist hafa mest áhrif þegar taugakerfið er að þroskast.

Svo hvað breytist við þessa staðfestingu? Í sannleika sagt breytist ekki mjög mikið þar sem heilbrigðisstarfsfólk hefur hingað til unnið eftir þeim ferli að telja vírusinn skaðlegan. Hins vegar geta vísindahópar nú lagt meira kapp á að skilgreina á hvaða skala skaðinn getur verið og hvernig veiran veldur honum. Með þessu móti er því hægt að skilgreina hvenær í meðgöngu er mikilvægast að verja móðurina og hvernig mögulega væri hægt að skima fyrir fóstuskaðanum ef smit hefur átt sér stað.