Unknown

Sífellt fleiri konur í hinum vestræna heimi kjósa að borða fylgjuna eftir barnsburð. Til dæmis er vinsælt að láta þurrka hana og taka inn í töfluformi, líkt og má sjá að myndinni hér að ofan. Þær konur sem kjósa að borða fylgjuna trúa því að það hafi jákvæð áhrif á heilsuna. Engar rannsóknir benda þó til þess að það sé nokkur ávinningur af því að innbyrða fylgjuna, samkvæmt grein sem birt var í tímaritinu Archives of Women’s Mental Health.

Í rannsókninni voru skoðaðar 10 ritrýndar greinar sem könnuðu áhrif þess að borða fylgjuna eftir barnsburð. Engin greinanna sýndi fram á með óyggjandi hætti að þær konur sem innbyrða fylgjuna glími síður við fæðingaþunglyndi, upplifi minni sársauka eða meiri orku eftir fæðingu.

Rannsóknarhópurinn telur jafnvel að iðjan gæti verið skaðleg. Fylgjan er ekki steríl og í rannsóknum á þeim hafa meðal annars fundist merkúr og blý. Cynthia Coyle, fyrsti höfundur greinarinnar, benti einnig á í fréttatilkynningu að ekkert regluverk séu í kringum það hvernig eigi að geyma eða vinna fylgjur og að ósamræmi sé í skammtastærðum. Konur vita þess vegna í rauninni ekki hvað það er sem þær eru að innbyrða.

Það er von rannsóknarhópsins að grein þeirra muni opna fyrir umræðuna svo mæður geti tekið upplýsta ákvörðun um hvað skuli gera við fylgjuna eftir barnsburð í stað þess að fylgja fyrirmælum sem ekki eru byggð á vísindalegum grundvelli.