Mynd: Freyja Imsland
Mynd: Freyja Imsland

Oft er talað um að hesturinn sé þarfasti þjónninn og er það ekki að ástæðulausu enda hafa hestar nýst manninum vel við ýmis verk og sem fararskjótar í gegnum tíðina. Ótal afbrigði hesta eru til og hafa þeir tekið nokkrum breytingum frá því að þeir voru fyrst tamdir fyrir um 6.000 árum. Meðal þessara breytinga má nefna að þeir hafa að miklu leiti tapað álótta litnum sem nýttist forfeðrum þeirra vel sem felulitur.

Nýverið birti alþjóðlegt teymi vísindamanna frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð og Hunstville Instititue of Biotechnology í Alabama grein í hinu virta tímariti Nature Genetics þar sem ljósi er varpað á erfðir álótta litarins. Annar tveggja meginhöfunda greinarinnar er hin íslenska Freyja Imsland, doktor í erfðafræði og á hún heiðurinn að erfðafræðilega hluta rannsóknarinnar.

Álótti liturinn einkennist af dökkri rönd (álnum) sem liggur eftir hryggjarsúlu hestsins, allt frá toppi að stertsenda, en auk þess bera álóttir hestar oft önnur einkenni svo sem dökka leggi eða leggjarendur. Í dag má finna álótta litinn hjá mongólska villihestinum og villtum ösnum en hann er sjaldgæfur meðal tamdra hesta.

Freyja segir álótta litinn meðal annars vera merkilegan fyrir þær sakir að “í ljósum hárum álóttra hrossa er litarefnið ekki jafndreift hringinn í kring um hárið. Sú hlið hársins sem vísar frá búki hestsins er dökk, en hliðin sem vísar innávið er að mestu án litarefnis”. Þetta er ólíkt hárunum í álnum sem eru jafnlit allan hringinn, líkt og hár hrossa í öðrum litum.

Mynd: Freyja Imsland
Mynd: Freyja Imsland

Í rannsókninni var erfðaefni hrossa kortlagt og raðgreint og kom í ljós að erfðabreytingar sem hafa áhrif á erfðaþáttinn TBX3 voru ólíkar á milli álóttra hrossa og hrossa í öðrum litum. Vísindamennirnir skoðuðu einnig hlutverk próteinafurðar TBX3 í vaxandi hárum álóttra og dökkra íslenskra hesta til þess að kanna hvaða áhrif það hefði á lit þeirra. Í vaxandi hárum fannst próteinið aðeins í „hársekkjum ljósra hára álóttra hrossa, en ekki í dökkum hrossum“ og er TBX3 aðeins að finna í hluta hársekks álóttra hrossa sem verður til þess að litfrumur þroskast ekki og dreifing litarefnisins verður ekki jöfn.

Einnig kom í ljós að tvær víkjandi erfðabreytinga, d1 og d2, liggja að baki skorti á álóttum lit. Rannsóknarhópurinn segir d1 og d2 hafa mjög ólík áhrif:

“Þau hross sem bera d1 erfðabreytinguna geta haft litmynstur sem svipar til álótta mynstursins þó þau séu sjálf dökk að lit, hrossin verða jarpmönótt, rauðmönótt, brúnmönótt, o.s.frv. Þau hross sem aftur á móti eru arfhrein um d2 erfðabreytinguna hafa almennt ekki mön eftir hryggnum. Þetta getur leitt til þess að eigendur mönóttra hrossa halda að hrossin séu álótt. Besta leiðin til að skilja þarna á milli er að horfa á bæði litstyrk og -tón hestsins. Sérstaklega er þetta líklegt til að verða fólki fjötur um fót með jarpmönótt hross, þau geta oft á tíðum blekkt eigendur sína að þau séu bleikálótt.”

Rannsóknarhópurinn telur að niðurstöðurnar geti varpað ljósi á það hvernig rendur sebrahesta myndast en þar gæti verið að TBX3 hamli litaframleiðslu líkt og í ljósum hárum álóttra hrossa. Hvað d1 og d2 varðar telja vísindamennirnir telja að d2 erfðabreytingin hafi aðeins komið fram eftir að hross voru tamin af mönnum. d1 er aftir á móti talið vera eldra en það, ásamt álóttri arfgerð, fannst við raðgreiningu á 43.000 ára gömlu sýni úr villihesti sem raðgreint var við Kaupmannahafnarháskóla.

En hvaða þýðingu hefur það? Að sögn Freyju gæti það þýtt að tvö litaafbrigði, jafnvel tvær undirtegundir, hafi verið til staðar við lok ísaldarinnar og að erfðaefni beggja litarafbrigða hafi verið til staðar í hrossum þegar þau voru fyrst tamin. Að lokum segir Freyja að

“frekari rannsóknir á erfðaefni úr fornleifum koma til með að sýna fram á hver útbreiðsla þessarra litaafbrigða var meðal villihesta, og þar með varpa frekara ljósi á það hvar og hvenær hestar voru fyrst tamdir”.