screen-shot-2016-12-14-at-21-59-25

Gæludýraeigendur þekkja líklega flestir af eigin raun þá gleði sem getur fylgt því að eiga gæludýr. Í nýlegri rannsókn var sýnt fram á að gæludýraeign geti verið jákvæð viðbót í meðferð við langvinnum geðsjúkdómum. Rannsóknarhópurinn vill að heilbrigðiskerfið nýti gæludýr sem meðferð í meiri mæli en nú er gert.

Þó fyrri rannsóknir hafi meðal annars sýnt að gæludýr geti verið jákvæð fyrir andlega heilsu og geti jafnvel gagnast fólki með einhverfu hafa ritrýndar greinar um efnið verið fáar. Vegna þessa kemst gæludýraeign sjaldan á blað sem raunhæf meðferð við geðsjúkdómum og vildi rannsóknarhópur í Ástralíu breyta því.

54 þátttakendur sem allir voru greindir með alvarleg geðræn vandamál á borð við geðhvarfasýki og geðklofa voru beðnir um að meta hvaða þættir í lífi þeirra gerðu þeim auðveldara að halda niðri einkennum sjúkdómsins. Niðurstöður þátttakenda voru nokkuð afgerandi og settu 60% þátttakenda gæludýr sín efst á blað á meðan 20% settu þau í annað sæti.

Viðtöl við þátttakendur leiddu síðan í ljós hvernig þeir töldu gæludýr hjálpa þeim í baráttunni við sjúkdóminn. Meðal þess sem nefnt var var að hreyfiþörf hundsins neiddi eiganda sinn til að fara fram úr á hverjum morgni og halda við ákveðnni rútínu í sínu daglega lífi. Auk þess sögðu þátttakendur gæludýrin hjálpa þeim að slíta sig frá hugsunum tengdum sjúkdómnum og töldu gæludýrin hvetja sig til að vera virkari.

Úrtak rannsóknarinnar var afar lítið svo erfitt er að draga ályktanir út frá þeim. Niðurstöðurnar eru þó í takt við það sem margir sérfræðingar hafa talið lengi og munu frekari rannsóknir á sviðinu vafalaust skera úr um hversu mikil og hvernig áhrif gæludýra eru. Þangað til að því kemur er aðeins hægt að geta sér til um ástæðurnar og er ein tilgáta rannsóknarhópsins að gæludýraeigendur upplifi minni einangrun, sér í lagi hjá þeim einstakingum sem eiga erfitt með að tengjast umheiminum.

Rannsóknarhópurinn gerir sér grein fyrir að mikilvægt sé að virða þarfir bæði sjúklinganna og gæludýranna sem á í hlut í þessu samhengi. Ekki sé síður mikilvægt að hugað sé að velferð dýranna í þessum aðstæðum og lykilatriði að sá sem tekur að sér dýr sé fært til þess að hugsa vel um það út ævi þess.

Greinin birtist í tímaritinu BMC Psychiatry.