Mynd: Mirror
Mynd: Mirror

Margir kannast við paleo fæði, en það er sá lífstíll að tileinka sér matarræði steinaldarmanna. Þetta matarræði samanstendur að miklu leyti af óunnu kjöti og fiski og á fyrirmyndina að vera að finna í því sem forfeður okkar munu líklegast hafa borðað.

Margar rannsóknir hafa verið framkvæmdar til að skilgreina hvernig forfeður okkar lifðu. Mikill hluti þekkingar okkar um um fæðuval þeirra fást með því að skoða áhöld eða lífrænar leyfar sem finnast í fornum bústöðum manna.

Nýleg rannsókn sem birtist í Quaternary International beitir öðrum aðferðum til að sýna fram á að Neanderthalsmenn, sem lifðu að hluta til samtímis Homo sapiens, lögðu sér meira til munns en bara kjöt. Í rannsókninni notar rannsóknarhópur bein sem Neanderthalsmanna og annarra dýra sem fundist hafa í Belgíu og lifðu á svipuðum tíma. Af þeim einangra þau kollagen, sem er byggingaprótín tengivefja á borð við sinar og slíkt. Síðan er hægt að greina hver uppruni prótíneininganna er með því að skoða annars vegar frumefnið nitur og hins vegar frumefnið kolefni.

Það er nefnilega þannig að frumefni geta haft mismunandi fjölda nifteinda en sama fjölda róteinda svo tvö efni með mismunandi massatölu telst samt sama efnið. Efni sem hafa mismundnai massatölu, en sama fjölda róteinda kallast samsætur eða ísótópar. Í fyrrnefndri rannsókn var s.s. verið að skoða nitursamsætur og kolefnissamsætur.

Hægt er að sjá hvort kolefnissamsæturnar sem koma fyrir í kollageninu koma úr lífveru sem bjó þær til með ljóstillífun eða lífveru sem hefur sent hana í gegnum einhver efnahvörf, þ.e.a.s. plöntu eða dýri. Þetta er sú tækni sem vísindahópurinn við Senckenberg nýtti sér til að greina hvað Neanderthals menn lögðu sér til munns en samsæturnar koma fyrir í kollageninu í sama hlutfalli og þær eru innbyrgðar. Í ljós kom að um 20% fæðunnar hefur sennilega átt uppruna sinn í plönturíkinu en restin hafa verið stórir grasbítar á borð við mammúta, eins og fleiri rannsóknir hafa bent til.

Það væri því seint hægt að segja að Neanderthalsmenn hafi verið grænmetisætur, þó að um fimmtungur fæðu þeirra hafi af öllum líkindum verið grænmeti. En áhugavert er það engu að síður að vita hvernig þessi útdauða tegund lifði og má auðveldlega sjá líkindin milli máltíða neanderthalsmanna og þeirra nútímamanna sem aðhyllast paleo-lífstíl.