Mynd: China Photos/Getty Images
Mynd: China Photos/Getty Images

Samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum hefur yfir helmingur HIV smitaðra einstaklinga í heiminum nú aðgang að lyfjum til að halda veirunni í skefjum. Þetta er í fyrsta sinn sem þessum árangri er náð. Að auki hefur dauðsföllunum vegna alnæmis (AIDS) fækkað um helming frá árinu 2005.

Um 36,7 milljónir einstaklinga eru í dag smitaðir af HIV veirunni en samkvæmt skýrslunni hafa 19,5 milljónir þeirra aðganga að lyfjum eða um 53%. Markmið Sameinuðu þjóðanna er að 30 milljónir muni hafa aðgang að lyfjum árið 2020.

Meðal markmiða sameinuðu þjóðanna er hið svokallaða 90-90-90 takmark. 90-90-90 takmarkinu var komið á árið 2014 og hefur það að markmiði að árið 2020 muni 90% þeirra sem eru HIV smitaðir vera meðvitaðir um HIV stöðu sína, 90% fólks með HIV hafi aðgang að lyfjameðferð og að hjá 90% þeirra sem hafi aðgang að merðferðinni sé veiran bæld niður.

Sjö lönd hafa nú þegar náð þessu takmarki: Ísland, Botswana, Kambódía, Danmörk, Singapúr, Svíþjóð og Bretland. Mörg lönd eru nálægt því markmiði en önnur eiga enn langt í land, sér í lagi í Mið-Austurlöndum, Norður Afríku, Mið-Asíu og Austur-Evrópu.