sperm

DV greindi frá því í gær að franskt fyrirtæki sem heitir Kallistem telji sig hafa þróað aðferð til að láta forvera sæðisfrumna þroskast í frumurækt og verða að nothæfum sæðisfrumum sem síðan megi nota til glasafrjóvgunar. Ef rétt reynist er þetta í fyrsta skiptið sem slíkt tekst og munu þessar uppgötvanir því valda straumhvörfum í meðhöndlun ófrjórra karlmanna.

Margir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um málið, m.a. Daily mail og The Independent en staðhæfingarnar hafa vakið töluverða athygli. Þar sem Kallistem sækir nú um einkaleyfi á aðferðinni hefur hún ekki enn verið birt í ritrýndu vísinda tímariti.

Á heimasíðu Kallistem er því lýst útá hvað aðferðið snýst, í grófum dráttum. Þau byrja á að taka vefjasýni úr eistum en þar eru í flestum tilfellum stofnfrumur sæðismyndandi vefs. Þroskun forvera sæðisfrumna í fullþroska sæðisfrumu tekur um 72 daga og er einkar flókið ferli. Hjá mönnum sem glíma við ófrjósemi er einhver hlekkur í ferlinu sem fer úrskeiðis og sæðisfrumur ná aldrei fullum þroska. Það sem Kallistem stefnir á að gera er að rækta stofnfrumur úr sæðismyndandi vef og breyta þeim í fullþroska sæðisfrumur með því að herma eftir því flókna ferli sem frumurnar þurfa að fara í gegnum, í frumurækt. Kallistem hefur enn ekki gert neinar klínískar tilraunir á aðferðinni, en slíkt er á stefnuskrá þeirra sem allra fyrst.

Þann 23. júní næstkomandi mun einkaleyfisumsókn Kallistem vonandi vera afgreidd að fullu og munum við þá líklega fá að njóta þess að vita hvaða aðferðum Kallistem hyggst beita.

Þangað til niðurstöðurnar verða birtar taka sérfræðingar þessum tilkynningum með vara og hvetja fólk til að halda ró sinni. Yfirlýsingar sem þessar hafa áður dunið á fólki sem glímir við ófrjósemi en reyndust þá ekki á rökum reistar Er það ein af ástæðum þess að sérfræðingar vilja vara fólk við að leggja of mikla trú á orð Kallistem. Markaðurinn sem Kallistem væri að fylla uppí telur fjölda einstaklinga og veltir mörgum milljörðum, það má því segja að Kallistem sjái hag sinn í því að selja fólki hugmyndina jafnvel áður en hún er fullsmíðuð.

Það verður því afar forvitnilegt að fylgjast með gangi mála og glugga í greinina frá Kallistem þegar hún kemur út í sumar. Vonandi heldur fyrirtækið á lausninni í hendi sér, en við spörum samt sem áður yfirlýsingarnar þangað til við höfum harðari sönnunargögn undir höndum.