emulsifier

Unnar matvörur eru oft taldar óhollar vegna þess að þær innihalda mikið salt og sykur. En það er ekki allt, þær geta líka haft áhrif á bakteríuflóru meltingarfæra vegna ýruefna sem þær innihalda.

Ýruefni eru efni sem á ensku kallast emulsifier en þau gegna því hlutverki að halda saman vökvafasa og fitufasa. Það má því segja að ýruefnin geri matinn girnilegan. Mörg efni eru notuð sem ýruefni í matvælaiðnaði og hafa þau hvert sitt E-númer, eins og flestir þekkja. E-efnin eru mikið rannsökuð og hafa ekki skaðleg áhrif á fólk í þeim skömmtum sem þau eru sett í matvæli.

Bakteríuflóra meltingarvegar er samsett úr milljörðum baktería sem búa í metlingarfærum okkar. Þessar bakteríur eru ekki sýklar og eru okkur lífsnauðsynlegar til að líkami okkar virki rétt, brjóti niður og taki upp næringarefni svo eitthvað sé nefnt.

Í rannsókn sem framkvæmd var við Georgia State University, undir stjórn Benoit Chassaing og Andrew T. Gewirtz voru áhrif tveggja þekktra ýruefna skoðuð á mýs. Um var að ræða villigerð af músum annars vegar og hins vegar útsettar fyrir bólgusjúkdómum í meltingarvegi. Þessir bólgusjúkdómar hafa verið tengdir við breytingar á ákveðnum genum og mýs með þessar breytingar eru því útsettar fyrir sjúkdómnum. Efnin sem voru prófuð heita pólýsorbat 80 og karboxymetýl-sellulósi. Hópurinn gerði tilraunir þar sem músum voru gefin efnin í sambærilegum skömmtum og þau er að finna í matvælum og síðan var bakteríuflóra meltingavegar skoðuð. Í ljós kom að breytingar urðu á samsetningu bakteríu tegundanna og var metlingavefurinn útsettari fyrir bólgum vegna aukinnar seytunar bakteríanna á efnum sem virkja ónæmiskerfið.

Hjá þeim hluta músanna sem voru erfðafræðilega útsettar fyrir bólgusjúkdómum fór einkenna sjúkdóma, eins og Crohn’s að verða vart. Það sem kom á óvart var að hjá eðlilegum músum komu einnig fram væg einkenni og einnig óeðlilega mikil næringarinntaka.

Þó aukaefni í matvælum séu vel rannsökuð og eigi ekki að hafa skaðleg áhrif á fólk í því magni sem þau finnast í matvælum, þá gæti verið að þau hafi áhrif á bakteríurnar sem búa í meltingarveginum. Það er því kannski ágætt að velta fyrir sér hvort það sé hollt að borða of mikið af þeim með því að innbyrða oft unnar matvörur.

Hér má sjá fréttatilkynningu um málið.