Mynd: CBS news
Mynd: CBS news

Zika veiran heldur áfram að valda usla í Suður-Ameríku þó fréttaflutningi þar af hafi linnt hérlendis. Enn sem komið er hefur engum tekist að sýna fram á óyggjandi tengsl milli zika veirunnar og fæðinga barna með dverghöfuð, en þó má segja að vísindahópur við Johns Hopkins Medicine hafi fært okkur skrefi nær með rannsókn sinni sem birt var í Cell Stem Cell.

Í rannsókninni notast hópurinn við vefjasérhæfðar stofnfrumur, slíkar frumur voru svo einnig meðhöndlaðar til að líkjast forverafrumum taugafrumna í fósturþroska auk þess sem hópurinn notaðist við fósturstofnfrumur. Allar frumugerðir voru sýktar með zika veirunni. Í ljós kom að veiran sýkti af mestum krafti frumuræktir sem geymdu frumurnar sem líktust forverafrumum taugafrumna. Aðrar frumuræktir sýndu mun minni sýkingu þegar þær voru sýktar með jafn mörgum veirum.

Að auki skoðaði hópurinn hvaða áhrif sýkingin hefði á tjáningu gena í frumunum og sáust mest áhrif á tjáningu gena sem koma við sögu í stjórnun á frumuhringnum. Frumuhringurinn er sá ferill kallaður þegar frumur skipta sér, en slíkt ferli er mjög virkt í fósturfrumum, þar sem líffæri eru að myndast og stækka.

Þessar niðurstöður gefa vísbendingar um að veiran smitar forvera taugafrumna framyfir aðrar frumur i fóstrinu. Þegar sýking á sér stað hefur hún áhrif á tjáningu gena sem stjórna frumuhringnum og þannig hindrar veiran áframhaldandi vöxt á vefnum og leiðir dverghöfuðs.

Ætla má að notast megi við sambærilegar aðstæður til að skilgreina hversu smitandi veiran er og hvaða lyf mætti helst nota gegn henni. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu sem vonandi leiðir okkur að bólusetningu eða lyfjagjöf sem verndar fóstur gegn þessum vágesti.